Útvarpsmastrið á Gufuskálum á Snæfellsnesi hefur verið ljóslaust í rúmt ár. Um er að ræða hindrunarljós fyrir flugvélar sem eru biluð en flugvöllur er í næsta nágrenni við mastrið.
Mastrið er það hæsta sinnar tegundar í Evrópu, eða 412 metra hátt, og er rekið af Ríkisútvarpinu.
Í skriflegu svari frá Samgöngustofu segir að stofnunin hafi verið í sambandi við Ríkisútvarpið vegna málsins og að því verði fylgt eftir af stofnuninni.
Í svarinu segir jafnframt að upplýsingum um ljósleysið hafi verið komið til flugmanna eftir hefðbundnum leiðum. Tilkynningar hafi verið sendar til þeirra sem eiga flugleið um svæðið með upplýsingum um mögulegar hættur sem taka þurfi tillit til.
Mastrið var reist árið 1963 fyrir LORAN-C staðsetningarkerfi Breta og Bandaríkjamanna en því var breytt árið 1997 til að hýsa langbylgjusendi Ríkisútvarpsins.
Ægir Þór Þórsson, ábúandi á Gufuskálum, sagði í samtali við mbl.is í kvöld að það væri komið heilt ár síðan síðan hann sá síðast ljós á mastrinu. Upphaflega sagði í fréttinni að mastrið hefði verið ljóslaust í nokkra daga. Ægir sagði að það væri rangt. Ljósið hefði farið í óveðri á milli jóla og nýárs 2012.
Þá sagði Ægir að ljósleysinu fylgdi öryggisleysi og hætta.