Enn er víða illfært

Víða um land eru vegir illfærir og búist er við áframhaldandi hvassviðri eða stormi. Á Austurlandi er ófært á Möðrudalsöræfum, Vatnsskarði eystra og Fjarðarheiði en þungfært á Vopnafjarðarheiði.  Hálka er á flestum vegum á Héraði, snjóþekja og skafrenningur á Fagradal en hálka og skafrenningur í Oddskarði.  

Snjóþekja og snjókoma er síðan við suðausturströndina frá Djúpavogi og áfram vestur í Öræfi.

Snjókoma og skafrenningur er á fjallvegum á Austfjörðum og Norðausturlandi og rigning eða slydda SA-lands. Austan 20-25 m/s og vindhviður yfir 40 m/s undir Eyjafjöllum og í Öræfum og einnig hvassar vindhviður við fjöll á SV-landi.

Á Vestfjörðum er flughálka frá Brjánslæk og að Klettshálsi en annars víða hálka á vegum.  Snjóþekja og skafrenningur er á Þröskuldum og hálka og skafrenningur á Steingrímsfjarðarheiði. Þæfingsfærð er norður í Árneshrepp.

Greiðfært er á Hellisheiði og í Þrengslum en annars eru hálka eða hálkublettir á flestum leiðum á Suðurlandi. Flughálka er á Kjósarskarði og í Grafningi. Óveður er undir Eyjafjöllum og á Reynisfjalli.

Á Vesturlandi er hálka eða hálkublettir á flestum leiðum en flughálka í Þverárhlíð og Hvítársíðu.

Norðvestanlands er hálka og skafrenningur og Vatnsskarði og flughálka og óveður á austari hluta Þverárfjallsvegar.
Greiðfært  er að mestu í Húnavatnssýslum en hálka eða hálkublettir á öðrum leiðum.

Á Norðausturlandi er hálka eða hálkublettir á flestum leiðum. Snjóþekja og skafrenningur á Öxnadalsheiði  og á Víkurskarði. Þæfingsfærð og skafrenningur er á Hólasandi. Hálka og óveður er á Hófaskarði en hálka og skafrenningur er á Mývatnsöræfum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert