„Það er ekki að sjá að þetta breytist mikið í bráð,“ segir Þorsteinn V. Jónsson, veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, í samtali við mbl.is spurður hvort gera megi ráð fyrir því að áfram verði klaki og ís á jörðu víða á landinu og ekki síst á höfuðborgarsvæðinu eins og verið hefur að undanförnu.
Þorsteinn segir skilyrði fyrir því að klaki og ís bráðni sé helst að finna á suðaustanverðu landinu á næstunni en ekki á höfuðborgarsvæðinu. Þannig verði úrkoma lítil og hiti rétt fyrir ofan frostmark. „Þetta á kannski eftir að minnka eitthvað í Reykjavík og nágrenni en það hverfur ekki og verða áfram mjög varasamar klakahellur hér og þar.“
Spurður hvaða skilyrði þyrftu að vera á höfuðborgarsvæðinu til þess að ísinn léti sig hverfa segir Þorsteinn að ef sunnanátt yrði í heilan dag með mikilli rigningu og hlýindum þá gæti þetta hreinsast upp. En ekki sé útlit fyrir slíkt á næstunni. „Þetta er ekki að fara alveg í bráð.“