Forseti Alþingis áminnti þingmenn í sérstakri umræðu um stöðu verndarflokks rammaáætlunar að nota rétt ávarpsorð. Þá hafði fyrrverandi umhverfisráðherra í tvígang rætt um núverandi ráðherra sem „svokallaðan“ umhverfisráðherra.
Í umræðunni voru hörð skoðanaskipti um tillögur Sigurðar Inga Jóhannssonar umhverfisráðherra að nýrri afmökun friðlands Þjórsárvera og nágrennis og Norðlingaölduveitu í nýrri mynd.
Svandís Svavarsdóttir, fyrrverandi umhverfisráðherra, sagðist telja að engum hefði dottið það í hug í janúar fyrir ári að nú stæðu menn frammi fyrir því að „hæstvirtur svokallaður umhverfisráðherra“ stæði fyrir því að vaða beint inn í verndarflokkinn með virkjanaáform. Bætti hún því við að „hæstvirtur ráðherra svokallaður“ og Jón Gunnarsson þingmaður hefðu komið fram með ýmsar breytingartillögur við afgreiðslu rammaáætlunar en engar sem snéru að þessu svæði.
Þegar hér var komið við sögu var gerð athugasemd við orðanotkun þingmannsins og Einar K. Guðfinnsson, forseti Alþingis, áminnti þingmenn um að nota rétt ávarp.
Þegar Svandís sagðist myndu leitast við að gera það tók forseti aftur orðið og sagði að þingmaðurinn myndi ekki leitast við það, hann ætti einfaldlega að fylgja þeim fyrirmælum sem fælust í þingsköpum Alþingis.
Sigurður Ingi sagðist í seinni ræðu sinni ekki taka persónulegt skítkast til sín. Það þjónaði ekki málefnalegri umræðu og vísaði einnig til umfjöllunar í New York Times og RÚV.
Fjölmargir þingmenn tóku þátt í umræðunni sem fram fór að beiðni Katrínar Jakobsdóttur, formanns VG, og Róberts Marshall, þingmanns Bjartrar framtíðar. Sigurður Ingi Jóhannsson umhverfisráðherra var til andsvara.