Bætur ekki lægri þó skynjara vanti

Eldsvoði í Hraunbæ 30 sl. föstudag. Þar er talið að …
Eldsvoði í Hraunbæ 30 sl. föstudag. Þar er talið að kviknað hafi í út frá kerti. Mynd/Pressphotos.biz

Sex prósent landsmanna hefur engan uppsettan reykskynjara á heimili sínu og 25,1% hafa einn slíkan. Þetta kemur fram í könnun sem gerð var af Eldvarnarbandalaginu árið 2012.

Reglulega berast fréttir af bruna í íbúðarhúsnæði og verða þeir oftar en ekki í desember, janúar og febrúar. Á þessum tíma kveikja margir á kertum í svartasta skammdeginu og þar að auki fylgja jólahátíðinni hinar ýmsu kertaskreytingar.

Reykskynjari ekki alltaf til staðar

Þegar litið er til baka má finna nokkur tilvik þar sem eldur kom upp en enginn reykskynjari var í húsnæðinu. Í þeim tilvikum hafa nágrannar eða aðrir oft orðið varir við eldinn og yfirleitt tekist hefur að bjarga íbúum, stundum á ögurstundu. Einnig kemur fyrir að reykskynjarar virka ekki sem skildi eða íbúðar vakna einfaldlega ekki við lætin í skynjaranum.

Hundur bjargaði mannslífum í Hafnarfirði í september á síðasta ári. Þar logaði eldur í íbúð á jarðhæð. Enginn reykskynjari var í íbúðinni en vöknuðu íbúarnir þegar hundurinn fór að gelta og komust þeir með naumindum út úr íbúðinni. Karlmaður á fimmtugsaldri lést í eldsvoða í Tunguseli í Breiðholti í janúar árið 2008. Talið var hugsanlegt að upptök eldsins mætti rekja til bruna í kertaskreytingu. Við bráðabirgðaskoðun innandyra í íbúðinni sáust engin merki um reykskynjara.

Skemmst er að minnast bruna í Hraunbænum aðfaranótt föstudags í síðustu viku en þar er talið að eldur hafi kviknað út frá kerti. Þar komust fjórir út úr brennandi íbúð, þar á meðal 19 ára stúlka sem er gengin átta mánuði með barn sitt. Lögreglu og slökkviliði tókst að bjarga hjónum út um glugga á íbúð þeirra við Mávabraut í Keflavík þann 7. janúar síðastliðinn, en þar er talið líklegt að eldur hafi kviknað út frá kerti. Reykskynjari var í íbúðinni, en hann virðist ekki hafa náð til fólksins.

Þá kom upp eldur í íbúð í Írabakka að næturlagi í byrjun desember. Mæðgur voru íbúðinni og tókst dótturinni að bjarga móður sinni út úr íbúðinni. Móðurinni var haldið sofandi í öndunarvél á gjörgæsludeild Landspítalans í nokkra daga eftir brunann. Rannsókn á brunanum og upptökum hans er ekki lokið og fást ekki upplýsingar um hana að svo stöddu.

Atvikin sem nefnd eru hér að ofan eru aðeins nokkur dæmi um bruna hér á landi á síðustu árum.  

Ekki lægri bætur ef reykskynjarann vantar

Samkvæmt upplýsingum frá tryggingafélaginu Sjóvá er ekki litið til þess hvort reykskynjari hafi verið í íbúð viðskiptavina þegar mat er lagt á bætur vegna tjóns af völdum bruna. Þar af leiðandi fá þeir sem ekki hafa reykskynjara ekki lægri eða engar bætur vegna tjónsins af þeim sökum að búnaðinn vantar.

Það að vera með öryggiskerfi og brunavarnir í lagi lágmarkar hins vegar verulega líkurnar á því að lenda í tjóni og það er því áríðandi að íbúar séu meðvitaðir um að svona einfaldur öryggisbúnaður getur komið í veg fyrir stórtjón eða slys, segir Fjóla Guðjónsdóttir forstöðumaður forvarna hjá Sjóvá.

Fjóla segir kannanir hafi leitt í ljós að algengast að fólk á aldrinum 18 til 30 ára hafi engan reykskynjara eða ef til vill aðeins einn. Hún bendir á að fólk á þessum aldri sé oft í leiguhúsnæði. Samkvæmt byggingarreglugerð skulu vera reykskynjarar á hverju heimili en erfitt er að hafa eftirlit með að svo sé. Það er því jafn mikilvægt að fræða um mikilvægi reykskynjara sem og huga að betra eftirliti með uppsetningu reykskynjara.  Það á bæði við um húsnæðiseigendur sem og leigusala, segir Fjóa.

Hún segir jólaskreytingarnar stóran áhættuþátt í desember og janúar. Þá hafi kertin í kertaskreytingunum nánast brunnið niður og hætt við að eldurinn nái í þurrt greni eða annað sem fylgir skreytingunni. Flestir brunar á þessu tímabili verði vegna kerta og rafmagns.

Færri en áður með slökkvitæki

Í könnun sem gerð var af Landsambandi slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna og Eldvarnabandalaginu í október 2012 kom í ljós að 66,8% þeirra sem spurðir voru höfðu slökkvitæki á heimili sínu og voru það heldur færri en áður áður. 57,6% sögðust vera með eldvarnateppi á heimilinu og voru það einnig færri en árið áður.

Sex prósent sögðust ekki hafa reykskynjara á heimili sínu, 25,1% sögðust vera með einn reykskynjara, 24,7% með tvo og 14,8% með þrjá reykskynjara. 26,1% sögðust eiga óuppsettan reykskynjara á heimilinu

Slökkviliðið að störfum í Írabakka 30 í desember.
Slökkviliðið að störfum í Írabakka 30 í desember. Photo/Pressphotos.biz
Frá Hraunbæ 30. Þar er talið að kviknað hafi í …
Frá Hraunbæ 30. Þar er talið að kviknað hafi í vegna kertis. mbl.is/Þórður
Aðgát þarf þegar kertaskreytingar eru annars vegar.
Aðgát þarf þegar kertaskreytingar eru annars vegar. mbl.is/Valdís
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert