ESB er og verður deilumál

Gunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra.
Gunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég verð hins vegar að minna háttvirtan þingmann á það að Evrópusambandið sem slíkt er deilumál og verður deilumál hvort sem menn ganga í það eða ekki. Við þurfum ekki annað en að ferðast um Evrópulöndin, funda með þingmönnum í Evrópusambandsríkjunum. Hvað er það sem helst er rætt þar? Evrópusambandið. Evrópusambandið og deilur um það fara ekkert þó að við göngum eða göngum ekki í Evrópusambandið.“

Þetta sagði Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra í umræðum á Alþingi í dag en þar svaraði hann fyrirspurn frá Guðmundi Steingrímssyni, formanni Bjartrar framtíðar. Guðmundur kallaði eftir því að haldið yrði áfram umsóknarferlinu að Evrópusambandinu og reynt að ná sem bestum samningi sem síðan yrði kosið um. Spurði hann ráðherrann hvernig hann vildi útkljá þetta mál sem deilt hefði verið um lengi hér á landi.

Gunnar Bragi sagði að Guðmundi ætti að vera ljós afstaða hans til Evrópusambandsins eins og öðrum þingmönnum. Ég vil alls ekki að við göngum í Evrópusambandið, tel það raunar fráleitt að við göngum í Evrópusambandið.“ Ennfremur sagðist ráðherrann ekki vera sammála því að hægt væri að ná góðum samningi við sambandið enda lægi fyrir hvað væri í boði. Evrópusambandið væri einfaldlega í boði og þannig hefði það alltaf verið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert