Fyrrverandi dómarar fylla í skarð

Töluvert er um það að fyrrverandi dómarar hafi verið kallaðir til starfa í Hæstarétti á nýju ári, vegna forfalla eins dómara. Níu fyrrverandi dómarar og dómstjóri hafa tekið sæti í jafn mörgum málum sem flutt verða þar til 7. febrúar. Sex þeirra eru settir með heimild sem tók gildi í ársbyrjun 2013.

Skömmu fyrir jól 2012 samþykkti Alþingi frumvarp þáverandi innanríkisráðherra, Ögmundar Jónassonar, um breytingu á lögum um dómstóla. Með frumvarpinu var lagt til að rýmkuð yrði heimild til að setja varadómara við Hæstarétt. Breytingin fólst annars vegar í því að 70 ára aldurshámark taki ekki til setningar varadómara í tiltekið mál eða til skemmri tíma - allt að einu ári - og hins vegar í tímabundinni heimild til að setja varadómara þótt sæti einskis dómara sé autt við réttinn.

Í athugasemdum við frumvarpið segir: „Þetta felur til dæmis í sér að fyrrverandi hæstaréttardómarar með mikla reynslu gætu tekið sæti í einstökum málum en slíkt ætti að stuðla að meiri skilvirkni en ef varadómarar kæmu úr röðum þeirra sem ekki búa yfir slíkri starfsreynslu. Má þá frekar gera ráð fyrir að bregðast megi við auknu tímabundnu álagi með því að fá varadómara til starfa í stað þess að fjölga skipuðum dómurum við réttinn. Ástæðulaust er að þessi heimild verði tímabundin, enda engin haldbær rök sem mæla gegn því að kvaddir yrðu til þeir sem hafa af miklu að miðla.“

Af níu varadómurum sem settir hafa verið á mál í ár eru sex fyrrverandi Hæstaréttardómarar og eru fjórir þeirra komnir yfir sjötugt. Það eru Guðrún Erlendsdóttir, Garðar Gíslason, Hrafn Bragason og Haraldur Henrýsson. Hinir tveir Hæstaréttardómararnir eru Gunnlaugur Claessen og Jón Steinar Gunnlaugsson.

Þá taka einnig sæti í einstökum málum Eggert Óskarsson fyrrverandi héraðsdómari, Friðgeir Björnsson fyrrverandi dómstjóri og Stefán Már Stefánsson fyrrverandi prófessor. Þeir eru allir komnir yfir sjötugt.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert