Forsætisráðherra býr ekki yfir upplýsingum til að svara fyrirspurn Árna Páls Árnasonar, þingmanns Samfylkingarinnar, um tillögur ríkisstjórnarinnar til að lækka höfuðstól verðtryggðra húsnæðislána.
Í svari Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra segir að enginn fyrirliggjandi gagnagrunnur geti metið áhrif leiðréttingarinnar á einstaka tekju-, skulda- og greiðslubyrðihópa með nægjanlega nákvæmum hætti. Spurning Árna Páls er níu liðum.
„Einkum er spurt um áhrif leiðréttingar á hópa með tekjur, skuldir og greiðslubyrði á ákveðnu bili. Forsætisráðuneytið býr ekki yfir upplýsingum til að svara þessari fyrirspurn. Enginn fyrirliggjandi gagnagrunnur getur metið áhrif leiðréttingarinnar á einstaka tekju-, skulda- og greiðslubyrðihópa með nægjanlega nákvæmum hætti, ekki hvað síst vegna samspils við fyrri aðgerðir sem dragast frá leiðréttingunni,“ segir í svari forsætisráðuneytisins.
Þá segir að forsætisráðuneytið og fjármála- og efnahagsráðuneytið muni á næstunni safna frekari upplýsingum um dreifingu leiðréttingar, m.a. með upplýsingum úr skattframtölum að því marki sem það er unnt, með það að markmiði að þær nýtist við þinglega meðferð mála sem tengjast leiðréttingunni.
„Rétt er þó að ítreka að aðgerðir ríkisstjórnarinnar um höfuðstólslækkun húsnæðislána, sem kynntar voru 30. nóvember sl., eru almennar og nýtast öllum þeim sem voru með skráðar verðtryggðar húsnæðisskuldir á tilteknum tíma, óháð tekjum, skuldum og fjárhagsstöðu að öðru leyti. Aðgerðirnar eru ekki félagslegt úrræði heldur er þeim ætlað að taka á þeim vanda heimila sem til er kominn vegna hinnar ófyrirsjáanlegu höfuðstólshækkunar verðtryggðra lána sem leiddi af gengislækkun íslensku krónunnar,“ segir í svari forsætisráðherra.