Vinnuvél á vagni flutningabíls rakst harkalega upp í öryggisbita yfir suðurmunna Hvalfjarðarganga um kl. 12.30 í dag. Ein öryggiskeðja bitans af þremur slitnaði, vinnuvélin stórskemmdist og búnaður ganganna sömuleiðis. Það tók um tvo klukkutíma að losa tækin og fjarlægja öryggisbitann, sem er um 700 kg stálstykki.
Þetta segir í tilkynningu sem Spölur hefur sent frá sér, en fram kemur að flutningabíllinn hafi verið á leið frá Reykjavík norður í land.
Fram kemur, að lög mæli fyrir um að farmur megi ekki vera hærri en 4,2 metrar og það geti jafngilt háskaleik að umgangast lagaákvæðið af gáleysi. Yfir munnum ganganna beggja vegna fjarðar séu stálbitar sem flutningabílstjórar viti vel að takmarka hæð farmsins í öryggisskyni fyrir þá sjálfa og aðra vegfarendur.
Þá segir, að of hár farmur myndi ógna ljósa- og öryggisbúnaði í lofti ganganna og dæmi séu um að farmur hafi verið svo hár að flutningabíll hafi keyrt sig klossfastan í göngunum.
„Það gerðist hvað eftir annað á árunum 2005 og 2006 að farmur af ýmsu tagi lenti í stálbitunum yfir munnum ganganna og stundum skall hurð ansi nálægt hælum. Hættuástand skapaðist líka í dag. Áreksturinn var svo harður að stálbitinn hentist upp gangavegginn, sleit öryggiskeðju og skemmdi kapalstiga sem loftljós eru fest á. Tvær öryggiskeðjur stálbitans héldu, sem betur fer.
Lögregla höfuðborgarsvæðisins kom á vettvang og göngunum var lokað alveg um tíma á meðan farið var á brott með flutningabílinn, vinnuvélina og ónýta öryggisbitann. Þess á milli var unnt að hafa aðra akreinina opna og stjórna umferð til skiptis suður og norður,“ segir Spölur.