Fleiri ferðamenn en minni tekjur

Vel klæddir ferðamenn í miðbænum.
Vel klæddir ferðamenn í miðbænum. mbl.is/Ómar

Árið 2012 komu 672.900 ferðamenn til Íslands og nam aukningin á milli ára 18,97%. Skattar á ferðaþjónustuna skiluðu alls 20,6 milljörðum króna í ríkissjóð, en skattar á hvern ferðamann árið 2012 námu 30.659 kr., eða 31.801 á verðlagi ársins 2013. Árið 2002 námu skattar á hvern ferðamann hins vegar 59.000 kr. á verðlagi ársins 2013, en tekjurnar hafa farið minnkandi ár frá ári.

Þetta kemur fram í svari Bjarna Bendiktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, við fyrirspurn frá Oddnýju G. Harðardóttur, þingmanns Samfylkingarinnar, um tekjur ríkissjóðs af hverjum ferðamanni.

Í svari ráðherra kemur, m.a. fram að fjárhæðir fyrir áriin 2010-2012 séu áætlaðar út frá veltu erlendra greiðslukorta innanlands á grundvelli gagna frá Hagstofunni.

Fram kemur á árið 2002 hafi ferðamennirnir sem sóttu Ísland heim verið 277.900 talsins og alls námu skattar á ferðaþjónustuna það ár 8,8 milljörðum kr.

Oddný spurði Bjarna m.a. að því hverjar væru helstu skýringar á tekjumun milli ára.

Í svarinu segir, að  gengið sé út frá þeirri forsendu að átt sé við þróun beinna skatttekna á föstu verðlagi á hvern ferðamann yfir tímabilið 2002–2012, sem sýni umtalsverða lækkun í krónum talið.

„Ljóst er að margir samverkandi þættir liggja að baki þeirri lækkun sem erfitt er að meta hvern fyrir sig. Ráðuneytið hefur ekki yfir að ráða slíkri greiningu, en leiða má að því sterkar líkur að þessi mikla fjölgun ferðamanna feli í sér breytingar á samsetningu hópsins. Ýmsar kannanir virðast benda til þess að hver ferðamaður eyði lægri fjárhæðum hér á landi en í upphafi tímabilsins sem skoðað er. Gistimöguleikum hérlendis hefur til dæmis fjölgað verulega, sérstaklega í ódýrari kantinum, sem væntanlega á sinn þátt í að skapa grundvöll fyrir þeirri fjölgun sem orðið hefur. Lækkun virðisaukaskatts 1. mars 2007 úr 14% í 7%, á matvöru, veitinga- og gistiþjónustu, skýrir væntanlega einnig hluta af þessari þróun þar sem þau viðskipti veita ekki rétt til endurgreiðslu virðisaukaskatts eins og kaup á varanlegum varningi,“ segir í svarinu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka