Á Suðurlandi eru nú 35 á biðlista eftir hjúkrunarrými og er staðan eins slæm og hún getur orðið að sögn Unnar Þormóðsdóttur, formanns Færni- og heilsumatsnefndar Suðurlands. Unnur segir að biðlistinn lengist jafnt og þétt með árunum enda fjölgi alltaf í hópi aldraðra.
„Í helstu þéttbýliskjörnum Árnessýslu veitum við kvöldþjónustu sjúkraliða í heimahjúkrun en lengra úti í byggðunum er bara í boði dagþjónusta frá heilsugæslunni. Það þýðir að veikir aldraðir einstaklingar þurfa að komast inn á heimili því það er ekki heimaþjónusta á kvöldin,“ segir Unnur sem vill efla heimahjúkrunina. Hjúkrunarrýmin á Suðurlandi eru 245 talsins en aðeins 240 þeirra eru í notkun. Ástæðan er að stofnanirnar sem hafa leyfin fyrir rýmunum fimm hafa ekki pláss fyrir þau. Verið er að reyna að fá þau flutt annað, á stofnanir sem hafa pláss, en Unnur segir það ganga hægt.
Almenn hjúkrunarrými fyrir aldraða á landinu öllu voru 2.432 í september 2013, 1.394 þessara rýma eru á höfuðborgarsvæðinu.