Leggjast gegn Sprengisandslínu

Á Sprengisandi; Hofsjökull í fjarska.
Á Sprengisandi; Hofsjökull í fjarska. www.mats.is

Stjórn ferðafélagsins Útivistar leggst alfarið gegn fyrirhugaðir háspennulínu yfir Sprengisand. Þetta kemur fram í ályktun frá félaginu.

„Háspennulína með tilheyrandi háspennumöstrum þvert yfir hálendið veldur óumdeilanlega miklum skaða á þeirri einstöku víðáttu sem hálendi Íslands er.
Óspillt víðerni í náttúru Íslands eru til lengri tíma litið mikilvægustu verðmæti þjóðarinnar og gegna sífellt stærra hlutverki í ferðaþjónustu. Því til viðbótar nýtur umtalsverður fjöldi landsmanna þess að fara á hálendið og upplifa óspillta náttúru.

Mannvirki á borð við háspennulínu er með öllu ósamræmanlegt við slíka upplifun og skerðir þau verðmæti sem þarna er að finna verulega. Lausn á flutningi raforku milli landshluta má ekki undir neinum kringumstæðum vera á kostnað óspilltra víðerna á íslenskum öræfum. Jafnframt er ekki undir neinum kringumstæðum hægt að fallast á frekari virkjanaframkvæmdir á þessu svæði. Nú þegar er búið að þrengja verulega að hálendinu á og við Sprengisand og er óásættanlegt að þau víðerni sem enn eru þar óspillt verði skert umfram það sem orðið er,“ segir í ályktun Útivistar.

Undirbúningur vegna mats á umhverfisáhrifum raflínunnar yfir Sprengisand og norður er þegar hafinn með gagnaöflun. Í sumar verða aðstæður á vettvangi kannaðar og ýmsir möguleikar á legu línunnar kannaðir. Einnig lagt mat á hvort mögulegt verði að hafa hluta línunnar í jarðstreng. Slíkt er þó margfalt dýrari kostur en að mati Landsnets kostar hver kílómetri í jörð um 137-166 milljónir kr. Hver kílómetri loftlínu leggur sig hins vegar á 64 milljónir kr.

Sprengisandslína
Sprengisandslína
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert