Mikilvægt er að staðið verði að friðlýsingum landssvæða í góðri sátt við sveitarstjórnarmenn, landeigendur og aðra. Þetta sagði Sigurður Ingi Jóhannsson, umhverfisráðherra, á fundi umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis í morgun þar sem rætt var um Norðlingaölduveitu og friðlýsingu Þjórsárvera. Sagði ráðherrann að hann myndi ekki hvika frá því.
Mikið var rætt á fundinum um lögfræðilega hlið ákvörðunar Sigurðar Inga um að breyta fyrirhugaðri friðlýsingu Þjórsárvera og hvernig hefði verið staðið að þeirri ákvörðun. Katrín Júlíusdóttir, varaformaður Samfylkingarinnar sem óskaði eftir fundinum í nefndinni, kallaði eftir heiðarlegum svörum frá ráðherranum. Að hann segði einfaldlega hreint út að hann vildi að Norðlingaölduveita yrði skoðuð að nýju vegna þess að Landsvirkjun hefði vildi það. „Segðu það bara,“ sagði hún. Sigurður Ingi svaraði því til að markmið hans sem umhverfisráðherra væri einfaldlega að stækka friðlandið eins og hægt væri.
Athugasemdir frá fleiri en Landsvirkjun
Þingmenn stjórnarandstöðunnar vildu meðal annars fá að vita hvenær athugasemdir hefðu borist frá Landsvirkjun við friðlýsingaráform fyrri umhverfisráðherra síðastliðið sumar sem urðu til þess að ráðherrann ákvað að staðfesta ekki fyrri friðlýsingaráform heldur endurskoða þau. Hvort frestir til að skila inn athugasemdur hefðu verið liiðnir og hvort fyrirtækið hefði fengið aukafrest í þeim efnum.
Sigurður Ingi benti á að athugasemdir hefðu borist frá fleiri aðilum en Landsvirkjun. Meðal annars sveitarstjórnum á svæðinu. Þá var bent á það á fundinum að heimilt væri að gera athugasemdir á meðan mál væru í ferli. Ekki síst í þessu máli þar sem markmiðið hefði verið að reyna ná sem breiðastri sátt. Landsvirkjun hefði því ekki fengið neina aukafresti í þeim efnum.
Róbert Marshall, þingmaður Bjartrar framtíðar, lagði áherslu á mikilvægi þess að horfa heildstæðar á landsvæði en gert væri eins og til að mynda miðhálendið og Sprengisand. Það væru þegar margar virkjanir á Suðurlandi og ef ekki væri horft heildstæðar á svæði gæti miðhálendið til að mynda orðið þannig að hvergi væri hægt að vera þar án þess að sjá einhver orkumannvirki. Ráðherrann tók undir það með Róbert.
Ætlaði ekki að saka fræðimenn um pólitík
Sigurður Ingi gat þess annars á fundinum vegna gagnrýni í umræðum um málið að undanförnu þess efnis að hann hafi sakað fræðimenn og fagmenn um að beita sér pólitísk vegna þess að það hafi ekki verið ætlun hans og ef einhver hefði tekið því þannig bæðist hann afsökunar á því. Þingmenn stjórnarandstöðunnar tóku vel í afsökunarbeiðni ráðherrans.
Sigurður fór annars þungum orðum um þá gagnrýni að hann væri umhverfisráðherra í hlutastarfi og væri ekki að sinna því hlutverki sínu sem skyldi. Lagði hann áherslu á að hann hefði alltaf reynt að horfa til umhverfissjónarmiða í störfum sínum, bæði sem þingmaður og ráðherra og áður sveitarstjórnarmaður.