Rafleiðni í Múlakvísl er nú há aðra vikuna í röð en þessu fylgir enginn órói eða skjálftavirkni samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofu Íslands.
Talið er að þessa auknu rafleiðni megi skýra vegna leka frá einum sigkatli í Mýrdalsjökli, en slíkt gerist annað slagið. Jarðskjálftafræðingar hjá Veðurstofunni segja að grannt sé fylgst með stöðunni.
Í tilkynningu sem Veðurstofan sendi frá sér, kemur fram að gildi á milli ~327 og ~360 µS/cm (míkrósímens) hafi mælst, ásamt smávægilegri rennslisaukningu.
Þá segir að nákvæmni sjálfvirku rafleiðnimælinganna hafi verið staðfest af Reyni Ragnarssyni í Vík með nokkrum handmælingum, en sjálfvirkum mælingunum og handmælingunum ber vel saman.
„Rafleiðni við brúna á Múlakvísl hefur mælst samfellt yfir 220 µS/cm síðan 31. desember. Þetta eru óvenju há gildi - dæmigerð gildi fyrir þennan tíma árs eru ~180 µS/cm,“ segir Veðurstofan.