Snjóflóð við veginn að Bauhaus

Síðastliðinn sunnudag lokaðist vegurinn fyrir ofan Bauhaus vegna fannfergis um fjögurleytið þegar lítið snjóflóð féll á veginn. Þá var lögð vinna í að halda veginum opnum á meðan bílastæðið við Bauhaus tæmdist.

Eftir það var veginum lokað og hann svo opnaður á ný fyrir klukkan átta á mánudagsmorgni.  Að sögn Jóns Halldórs Halldórssonar, upplýsingafulltrúa framkvæmdasviðs Reykjavíkurborgar, þótti ekki ástæða til að halda þessum vegkafla opnum eftir að versluninni var lokað, heldur var settur aukinn kraftur í að halda öðrum leiðum opnum.

Samkvæmt upplýsingum frá Jóni Halldóri þekkja starfsmenn Reykjavíkurborgar eitt annað tilvik frá því fyrr í vetur þegar snjóspýja féll úr klettunum norðaustan við Bauhaus (sjá rauðmerkt á meðfylgjandi skýringarmynd) sem rann yfir veginn.

Það var að hans sögn hreinsað hratt og hafði óveruleg áhrif á umferð. Jón Halldór sagðist ekki hafa upplýsingar um hvert umfang þess hafi verið, en segir að ein vél hafi verið fljót að ýta snjónum frá og opna leiðina á ný.

„Þetta eru einu tilvikin sem okkar starfsmenn vita um,“ segir Jón Halldór. „Þessi leið er eina leiðin af bílastæðinu við Bauhaus en eftir því sem við best vitum hafa bílar aldrei lokast inni á bílastæðinu. Því hefur verið varpað fram sem hugmynd að geta hleypt bílum út af bílastæðinu suðvestan við húsið og ég geri ráð fyrir að það verði skoðað.“

Rauða strikið sýnir svæðið þar sem snjór var hvað þyngstur. …
Rauða strikið sýnir svæðið þar sem snjór var hvað þyngstur. Gulu línurnar eru Vesturlandsvegur, sem gengur frá suðri til norðurs Kort frá Reykjavíkurborg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert