Gríðarleg fjölgun hefur orðið á ábyrgðarsendingum hingað til lands frá Kína og Hong Kong. Á síðasta ári komu samtals 77.806 sendingar þaðan í gegnum tollpóst, en 16.548 árið 2012 og 12.101 árið 2011. Sé litið til einstakra mánaða á nýliðnu ári bárust flestar sendingarnar frá Kína og Hong Kong í nóvember, 14.764 talsins, að því er fram kemur í upplýsingum frá Tollstjóra.
Þessi fjölgun stafar vafalítið af auknum innkaupum einstaklinga á netinu, segir í frétt Tollstjóra.
Þessu til viðbótar voru á árinu 2013 um 180.000 sendingar afgreiddar með einfaldri tollafgreiðslu. Slíkar sendingar voru um 133.000 árið 2012. Tollafgreiddar almennar sendingar á síðasta ári voru samtals 84.740, en 25.610 árið 2012, þannig að þar er einnig um að ræða verulega aukningu milli ára.