Alcoa Fjarðaál hefur hafið undirbúning að því að draga úr framleiðslu í ljósi boðaðrar orkuskerðingar, en Landsvirkjun tilkynnti Fjarðaáli í dag um fyrirhugaða skerðingu á umframorku vegna lágrar vatnsstöðu í Blöndulóni og Þórisvatni. Fjarðaál áætlar að alls muni framleiðslutapið nema tæpum 9.000 tonnum á tímabilinu.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Alcoa Fjarðaáli.
„Þetta er annað árið í röð sem Landsvirkjun tilkynnir Fjarðaáli um fyrirhugaða orkuskerðingu. Í samráði við Landsvirkjun og til að lágmarka áhættu vegna boðaðrar skerðingar þá, greip Fjarðaál til þeirra aðgerða að draga strax úr framleiðslu. Áætlað er að orkuskerðingin í ár standi frá 20. febrúar til aprílloka nema jákvæðar breytingar verði á vatnsmagni uppistöðulónanna,“ segir í tilkynningu.
„Í ljósi boðaðrar orkuskerðingar, sem nemur 58MW, hefur Fjarðaál nú hafið undirbúning að því að draga úr framleiðslu og verður í framhaldinu slökkt á allt að 10 prósentum af þeim 336 kerum sem fyrirtækið starfrækir. Alcoa Fjarðaál áætlar að alls muni framleiðslutap fyrirtækisins nema tæpum 9 þúsund tonnum á tímabilinu sem skerðingin mun standa. Aðgerðirnar munu ekki hafa nein áhrif á vöruflæði til viðskiptavina Alcoa,“ segir ennfremur í tilkynningu.