„„Af hverju hata þau okkur?“ var spurning sem heimsbyggðin spurði sig fyrir 12 árum, eftir árásirnar á tvíburaturnana 11. september 2001. Spurningin breyttist fljótlega í upphrópun og var stefnumótandi í stríði Bandaríkjanna og bandamanna þeirra við hryðjuverk.“
Á þessari spurningu hófst fyrirlestur Magnúsar Þorkels Bernharðssonar. Fullt var út úr dyrum á fyrirlestrinum.
Fyrirlesturinn bar yfirskriftina „Arabíska vorið - Er tími vonar liðinn?“ Magnús Þorkell er prófessor við Williams-háskóla í Bandaríkjunum, og er einn fremsti sérfræðingur Íslands í málefnum Mið-Austurlanda. Fyrirlesturinn var á vegum Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands
„Þetta var í upphafi 21. aldarinnar, og hún lýsir því hvaða afstöðu við tókum. Hvað kemur þarna fram? Í fyrsta lagi lýsir hún fáfræði okkar. Hatur er mjög sterkt orð. Síðan er heiminum skipt upp í tvennt, þau og okkur, svart og hvítt,“ segir Magnús Þorkell.
„Þetta var ráðandi hugmyndafræði frá 2001 til svona 2008. Svona brugðumst við við, og þessi stefna mótaði síðasta áratug. Þetta er líka mjög dýr spurning, því hagfræðingar á borð við Joseph Stieglitz hafa ályktað að þessi spurning, og stríðið gegn hryðjuverkum, hafi kostað Bandaríkin 2.000.000.000.000 dollara (tvo billjón dollara).“
„Fram að hruni var þetta ríkjandi hugmyndafræði í alþjóðasamfélaginu. Þetta var í reynd ekki spurning, þetta breyttist í upphrópun. Síðan líða þrjú ár. 2011 kemur fram staðhæfing í arabaheiminum: „Ash-shab yurid isqat an-nizam!“ Takið eftir að hér er upphrópunarmerki,“ segir Magnús Þorkell. „Þetta er á arabísku og þetta var kjörorð Egypta og Túnisbúa í byltingunni. Þetta þýðir: „Fólkið vill nýtt kerfi!“ Það sem er athyglisverðast er að fólkið rís upp og vill nýtt kerfi,“ segir Magnús Þorkell.
Hann segir þessa tíma hafa verið mjög spennandi, og að hann hafi sjálfur verið bjartsýnn. „Þarna var loksins kynslóð að koma fram sem var með nýjar hugmyndir og leiðir og skoðanir. Við vorum rosalega spennt. Eins og þetta hefur hins vegar þróast undanfarin þrjú ár má eiginlega breyta þessu upphrópunarmerki í spurningarmerki. „Vill fólkið nýtt kerfi?“ Og hvað er það þá sem fólkið krafðist? Hverjar urðu afleiðingarnar af arabíska vorinu?“ spyr Magnús.
Í fyrirlestrinum einblýnir hann á stöðuna í Egyptalandi, en Egyptar hafa farið í gegnum þrjár stjórnarskrár á jafnmörgum árum. Hann segir nýjustu stjórnarskrána vera eit form af nýju kerfi, en í henni er fest í lög að ýmis persónuleg málefni, svo sem reglur um hjónaband, skilnaði og svo framvegis, ráðist af lögum þess trúarflokks sem hver og einn einstaklingur tilheyrir.
„Það er spurning hvort þessi hreyfing hafi náð sínu fram. Það má alveg segja sem svo að byltingin hafi étið börnin sín. Þeir sem voru fyrst að berjast gegn ríkisvaldinu og Mubarak hafa algjörlega verið settir til hliðar. Núna er komið eitthvað nýtt fyrirbæri. Það er miklu frekar alræði heldur en lýðræði,“ segir Magnús Þorkell.
Magnúsn Þorkell veltir því upp hvernig lýðræðisbyltingin mikla hafi getað endað eins og raun ber vitni, fyrst með því að strangtrúaður múslimi, Muhammed Morsi, settist á valdastól, sem herinn svo steypti af stóli til að koma á áframhaldandi alræði.
„Þetta fólk steypti af stóli einræðisherra og fékk í staðinn einræðisherra. Þetta hefur gerst mjög hratt. Kannski erum við í nútímanum orðin óþolinmóð. Byltingarnar í Frakklandi, Bandaríkjunum og Rússlandi tóku allar sinn tíma, en þetta hefur gerst á þremur árum,“ segir Magnús Þorkell.
„Yfirleitt eiga byltingar eða svona stórfelldar samfélagsbreytingar sér stað á lengri tíma og veltir hlutunum meira fyrir sér. Ég myndi segja að þessi bylting, sem við í bjartsýni okkar kölluðum vor, að þarna væri komin fram ný kynslóð sem væri búin að bíða árum saman í vonleysi. Hún tók sig saman og gerði eitthvað pósitívt og notaði facebook eins og við og gerði eins og við viljum, lýðræði og losna við þessa gömlu fúlu karla, því þeir eru vondir karlar,“ segir Magnús Þorkell og er greinilega mikið niðri fyrir.
„Þess vegna héldum við með þessu unga fólki, því það er eins og við, vill frelsi. Auðvitað héldum við með þeim, því þau eru tákn nýrra tíma. Síðan þegar maður sá þessar myndir frá Tahrir-torgi, þar sem þúsundir manna söfnuðust saman í friðsælum mótmælum. Það var ekki neitt ofbeldi. Það var eins og Ghandi og Martin Luther King og Nelson Mandela væru komnir í arabaheiminn,“ segir hann.
„Þetta var mjög jákvæð þróun og loksins komu einhverjar góðar fréttir frá Mið-Austurlöndum. Þar af leiðandi var þetta jákvæða orð, vor, notað til að lýsa byltingunni.“
„Það sem var líka athyglisvert er hvað margt fólk var að vinna saman, sérstaklega verkalýðsfélögin og Bræðralag múslima,“ en Morsi, sem steypt var af stóli í fyrra, tilheyrir Bræðralaginu.
„Síðan voru bæði hægri- og vinstrisinnaðir menntamenn og fólk úr millistétt sem studdi byltinguna, því þau voru búin að fá nóg af þessu kerfi, þar sem eitt prósent af þjóðinni lifði í vellystingum. Þau sáu að Egyptaland var ekki að fara niður þá braut sem það sætti sig við.“
Síðan var efnt til kosninga. Magnús Þorkell segir það hafa komið mörgum á óvart þegar Morsi var kjörinn forseti. „Við vorum mjög ánægð með að Egyptar skyldu kjósa. Við héldum að eitthvað jákvætt kæmi út úr þessu. Síðan urðum við fyrir miklum vonbrigðum þegar Morsi og Bræðralagið sigruðu kosningarnar.“
Magnús Þorkell segir mjög einkennilegt að Morsi hafi náð jafnlangt og raun ber vitni. „Hann er...alveg einstaklega...hann hefur ekki sérstaka náðargáfu,“ segir hann og salurinn hlær, því Magnús er greinilega að leita orða til að lýsa Morsi án þess að gera það með neikvæðum formerkjum.
„Hann stjórnar fundum illa og er ömurlegur í mannlegum samskiptum. Þetta er furðulegt, því landið er fullt af fólki með mjög mikla útgeislun,“ segir Magnús Þorkell.
Hann segir að Bræðralagið hafi greinilega litið svo á að það hefði í kosningunum fengið umboð egypsku þjóðarinnar til að koma sínum málum að. „Þeir fóru statt og stöðugt að vinna að því að nota þetta umboð sem þeir töldu sig hafa fengið til að vinna að því að styrkja eigin stöðu.“
„Morsi fór fljótlega að styrkja eigin stöðu með því að hrifsa til sín völdum. Hann setti sjálfan sig ofar dómsvaldinu, hann breytti lögum þannig að ekki var hægt að lögsækja forsetaembættið, hann fór að skipta sér af fjölmiðlum og menningarstefnu landsins. Hann efaðist um hvort ballett ætti heima í Egyptalandi og vildi banna áfengi,“ segir Magnús Þorkell.
Þetta segir hann að hefði komið illa við ferðamannaiðnaðinn. „Þetta voru mál sem komu ekki með beinum hætti að þeirri lýðræðishugsun sem fólkið hafði barist fyrir. Það virtist líka vera, meðal þeirra sem fylgdust með þessu innanfrá, að hann væri að nota lýðræðið og lýðræðislegar stofnanir til að binda enda á lýðræðið,“ segir Magnús Þorkell og þagnar um stund til að undirstrika orð sín.
„Þarna er úrslitastundin, því það virðist svo margt neikvætt hafa verið að gerast. Það var sérstaklega á tveimur sviðum sem fólki fannst Egyptaland ekki vera á réttri braut, sérstaklega í málefnum kvenna. Fullt af konum fór út á Tahrir-torg og mótmæltu, enda höfðu þær miklu af tapa í núverandi ástandi. Þær vildu gjarnan fá nýtt kerfi í Egyptalandi.“
Undir stjórn Mubarak var giftingaraldur í Egyptalandi 18 ára. „Bræðralagið vildi lækka þetta niður í kynþroskaaldur kvenna, sem er svona 11, 12 , 13 ára. Þetta er eitthvað sem margir bókstafstrúaðir múslimar telja að sé mjög mikilvægt,“ segir hann.
Kynferðislegt ofbeldi jókst til muna á valdatíma Bræðralagsins og Morsi. „Á þeim tíma hættu herinn og lögregla að miklu leyti að vinna með Morsi. Staðan var orðin þannig að það var stjórnleysi á götunum. Konur þorðu hreinlega ekki út á götur.“
Magnús sýndi myndskeið á fyrirlestrinum þar sem stór hópur vopnaðara og brynvarinna lögreglumanna lætur höggin dynja á mótmælendakonu. Salurinn tók andköf og margir litu undan þegar myndbandið fór af stað, af góðri ástæðu. Mbl.is varar við efni myndbandsins.
Á myndbandinu má sjá að konan sem óeirðalögreglumennirnir beita ofbeldi er í bláum brjóstahaldara.
„Þetta varð frægt vegna þess að þarna sást hvernig ríkisstjórnin var að bregðast við. Það sést að hún er í bláum brjóstahaldara. Daginn eftir að þetta birtist, þá snéri umfjöllunin í blöðum Bræðralagsins ekki að því af hverju það væri verið að ráðast á konu og hvað var að gerast, heldur voru allar umræðurnar „af hverju var hún í bláum brjóastahaldara?“ Hvers konar kona gengur í þannig brjóstahaldara? Var hún að eggja mennina?“ segir Magnús Þorkell.
„Það var líka talað um að breyta lögunum þannig að í staðinn fyrir að hafa ein lög fyrir alla landsmenn þá væri það komið undir þinni trúdeild hvaða lögum einkamál þín lúti, mál á borð við hjúskap, skilnað og erfðarétt, sem getur verið neikvæð þróun fyrir konur.“
Magnús sýndi tvær myndir af fyrstu fórnarlömbum arabíska vorsins, fólki sem lét lífið í mótmælunum. Á myndunum eru 10 karlmenn og ein kona, konan mjög áberandi fyrir miðju eins og sjá má. „Síðan var plakötunum breytt þannig að konan var látin vera með slæðu. Konur sérstkalega að velta fyrir sér hvort þetta væri jákvæð þróun.“
Hann bendir á að staða kvenna í samfélögum sé oft prófsteinn á stöðu þeirra. Það sama megi segja um minnihlutahópa. „Koptar eru kristinn minnihluti í Egyptalandi. Þeir eru um 10% þjóðarinnar, og eru yfirleitt af efri millistétt, oft læknar, lögmenn, verkfræðingar og þar fram eftir götunum. Eftir að Bræðralagið komst til valda þá fór að bera á því að þeim fannst þrengt að sér. Öll leyfi til að breyta kirkjum voru mjög lengi í gegnum kerfið og fleira í þeim dúr. Það var beinlínis gert árás á fólk á leið til kirkju.“
Magnús Þorkell tekur dæmi af bænum Minya. „Það var í fyrsta skipti í 1.600 ár sem bænahald í kirkjunni þar féll niður. Hugsið ykkur hvað hefur gerst undanfarin 1.600 ár. Staða Kopta hefur því aldrei verið verri. Þeir þorðu ekki út til að sækja guðsþjónutu. Hann segir að þeir Kotpar sem hafi tök á því hafi því í unnvörpum flúið Egyptaland. Þetta arabíska vor er því að leiða til einhverskonar vorhreinsunar.“
Magnús lauk fyrirlestrinum á að benda á hversu mótsagnakennd staða er komin upp í Egyptalandi.
„Morsi komst til valda með lýðræðislegum hætti. Honum var steypt af stóli af hernum, sem var studdur til dæmis af vinstrisinnuðum menntamönnum. Þetta er mjög einkennileg og mótsagnakennd staða. Ég er ekki alveg viss hvernig beri að túlka þetta, og ég er ekki viss um hvort ég eigi að styðja þetta,“ segir hann.
„2013 tók herinn völdin. Þeir sem voru frjálslyndir og er umhugað um lýðræðið, þeir beittu ólýðræðislegum aðferðum til að steypa af stóli lýðræðislega kjörnum leiðtoga. Þá spyr maður: „Af hverju er þetta rétta leiðin? Af hverju biðuð þið ekki bara í þrjú ár eftir næstu kosningum?“ Svörin sem þeir gáfu voru að Bræðralagið var statt og stöðugt að þrengja að egypskum almúga. Þetta var eina leiðin til að bjarga lýðræðinu.“
„Þeir töldu að Egyptar væru miklu hugrakkari en til dæmis Þjóðverjar voru á fjórðar áratug síðustu aldar. Þeir hefðu átt að gera þetta 1933 og 1934. Við urðum að gera þetta.“
Hann veltir upp hvort þetta sé jákvætt og hvort þetta bindi endi á lýðræðisvon í Egyptalandi. „Samfara þessu hefur verið gerð atlaga að Bræðralaginu, og það lýst hryðjuverkasamtök. Þar af leiðandi er hann ólöglegur. Ef hann ætlar að ná áhrifum þá þarf hann að gera það til hliðar við hið lýðræðislega kerfi. Ætla þeir að beita öðrum aðferðum til að koma sínum sjónarmiðum á framfæri?“
Magnús Þorkell dregur fram mynd af Al-Sisi hershöfðinga, sem sé valdamesti maður landsins. „Hann er mjög heillandi maður. Hann er búinn að koma sér þannig fyrir að herinn ræður nánast öllu. Herinn er aldrei lýðræðislegt fyrirbæri. Hann er ekki líklegur til að stuðla að lýðræði í landinu. Ástæðan fyrir því að Egyptar eru svona uppteknir af honum er að þeir líta svo á að hann og herinn geti tryggt stöðugleika.“
Egyptar séu því tímabundið búnir að setja lýðræðisdrauma sína á hliðarlínuna, því þeir hafi meiri þörf fyrir stöðugleika. „Herinn í Egyptalandi hefur mjög sérstaka stöðu. Hann ræður svona 25-40% af hagkerfinu. Herinn og hermann búa til fullt af undirfyrirtækjum, barnaskólum, flugvöllum, rútufyrirtækjum og svo framvegis. Þeim er verulega í mun að viðhalda núverandi kerfi.“
Magnús bendir á að í þeirri stjórnarskrá sem Egyptar samþykktu að öllum líkindum í dag segi að flokkar sem byggja á trúarbrögðum séu bannaðir. „Hún er skárri en sú frá 2012, en hún er alls ekki fullkomin. Sharialög eru ein af helstu stoðum laga í landinu, en ekki eina eins og til stóð. Það er sagt vera trúfrelsi og að allir megi iðka sína trú. Það heldur hins vegar gildi sínu að lög um hjúskap fari eftir því hvaða trúardeild fólk tilheyrir,“ segir Magnús, og lýsir yfir þungum áhyggjum yfir þeirri þróun.