„Miklu betra að slíta viðræðunum“

Vilhjálmur Bjarnason, alþingismaður.
Vilhjálmur Bjarnason, alþingismaður. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég tel miklu eðlilegra að slíta viðræðunum núna heldur en að hafa þær í þessu limbói,“ sagði Vilhjálmur Bjarnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, í sérstökum umræðum á Alþingi í dag um stöðu umsóknarinnar um inngöngu í Evrópusambandið. Hann sagðist sjálfur vera hlynntur því að halda umsóknarferlinu áfram en gerði sér engu að síður grein fyrir því að mjög erfitt væri að halda því áfram þegar meirihluti þingmanna stjórnarflokkanna væri því andsnúinn.

Vilhjálmur minnti hins vegar á að Sjálfstæðisflokkurinn hefði verið hlynntur aðild bæði að Fríverslunarsamtökum Evrópu (EFTA) og EES-samningnum á sínum tíma en annað væri uppi á teningnum varðandi inngöngu í Evrópusambandið. Hann rifjaði einnig upp að stefna flokksins í Evrópumálum hefði verið málamiðlun á milli stuðningsmanna og andstæðinga inngöngu í sambandið. Þá vissi hann ekki til þess að einhver vinna væri í gangi til þess að koma til að mynda gjaldmiðlamálum þjóðarinnar í betra horf.

Mikilvægt að fá samning á borðið

Fleiri þingmenn tóku til máls í umræðunni sem fór fram að frumkvæði Árna Páls Árnasonar, formanns Samfylkingarinnar, og var Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra til andsvara eins og mbl.is fjallað um fyrr í dag. Guðmundur Steingrímsson, formaður Bjartrar framtíðar, kallaði eftir því líkt og Árni Páll að kosið yrði um framhald umsóknarferlisins í vor samhliða sveitarstjórnarkosningum. Sagði hann einu leiðina til þess að vita hvers konar samningum væri hægt að ná við Evrópusambandið að klára viðræðurnar við það.

Birgir Ármannsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og formaður utanríkismálanefndar Alþingis, sagði ótímabært að ræða um það hvaða afgreiðslu umsóknarferlið fengi að lokum. verið væri að vinna skýrslu fyrir stjórnvöld um stöðu ferlisins sem yrði síðan rædd í þinginu. Rifjaði hann upp stefnu stjórnarflokkanna og ríkisstjórnarinnar í málinu og benti á að þar væri þjóðaratkvæði aðeins sett sem skilyrði fyrir því ef ákveðið væri fyrst að halda umsóknarferlinu áfram.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert