„Við munum að sjálfsögðu fylgjast með þeirri umræðu sem fram fer á Ísland um inngöngu í Evrópusambandið og þar með talið væntanlega kynningu á skýrslu ríkisstjórnarinnar á umsóknarferlinu á Alþingi. Það var ríkisstjórn Íslands sem ákvað að gera hlé á umsóknarferlinu og boltinn er hjá henni varðandi næstu skref málsins.“
Þetta sagði Štefan Füle, stækkunarstjóri Evrópusambandsins, á Evrópuþinginu í gær þar sem hann gerði grein fyrir skýrslu um stöðu umsóknar Íslands um inngöngu í sambandið. Füle sagði framkvæmdastjórn Evrópusambandsins fyrir sína parta reiðubúna og hafa getu til þess að ljúka umsóknarferlinu og að hún væri sannfærð um að hægt væri að komast að hagkvæmri og jákvæðri niðurstöðu fyrir alla aðila. „En hvort sem umsóknarferlið heldur áfram eða ekki verður samstarf okkar áfram öflugt.“
Füle lagði áherslu á að framkvæmdastjórn Evrópusambandsins væri reiðubúin að halda umsóknarferli Íslands áfram hvenær sem er ef íslensk stjórnvöld óskuðu eftir því. „Það er vitanlega ákvörðun sem Ísland, og aðeins Ísland, getur tekið. Ef einhvern tímann verður tekin ákvörðun um að halda ferðinni áfram í átt að inngöngu í Evrópusambandið ættum við að vera reiðubúin að aðstoða Íslendinga á þeirri vegferð.“