Að mati Sambands íslenskra sveitarfélaga hefur fyrirkomulag vinnutíma grunnskólakennara marga ókosti. Til dæmis sá afsláttur af kennslu sem kennarar fá eftir að hafa náð tilteknum aldri og starfsreynslu. Þá er það mat sambandsins að skólastjórar þyrftu að hafa meira um vinnufyrirkomulag kennara að segja.
Vinnuskylda grunnskólakennara í fullu starfi er 1.800 klukkustundir á ári, líkt og annarra opinberra starfsmanna. Samkvæmt kjarasamningi er vinnutímanum skipt niður til tiltekinna verkefna, eins og sést á meðfylgjandi töflu. Þann hluta, sem þar kallast verkstjórnarþáttur, skipuleggur kennari í samráði við skólastjóra og getur í því m.a. falist aukið foreldrasamstarf eða samstarf við fagfólk. Skólastjórum er skylt að fylgjast með því yfir skólaárið hvernig kennarar sinna þeim verkefnum sem þeim hafa verið falin.
Á töflunni má líka sjá að þegar grunnskólakennari hefur náð tilteknum aldri og hefur a.m.k. tíu ára kennsluferil, þá minnkar hlutfall kennslunnar í starfi hans á kostnað annarra verkefna.
Að mati Svandísar Ingimundardóttur, skólamálafulltrúa Sambands íslenskra sveitarfélaga, hefur þetta fyrirkomulag og þessi skilgreining á vinnutímanum marga ókosti, t.d. að þekking þeirra kennara sem reyndari eru nýtist ekki sem skyldi. „Hér á landi eru kennarar með aldursafslátt, sem þýðir að reynsluboltarnir kenna minnst. T.d. kennir sextugur kennari einungis um 12 klukkustundir á viku hverri. Eftir sem áður stendur vinnuskylda þeirra til jafns við aðra og það er verkefni skólastjórans að finna einhver verkefni til uppfyllingar fyrir þessa kennara, en þau mega ekki snúast um samskipti við nemendur.“
Svandís segir það vera mat Sambands íslenskra sveitarfélaga að skólastjóri þurfi að geta haft meira um vinnufyrirkomulag kennara að segja en nú er. „Eins og þetta er núna, veldur þessi ítarlega og niðurnjörvaða vinnutímaskilgreining streitu í kennarahópnum, það er mjög takmarkaður sveigjanleiki innan þessa ramma,“ segir Svandís. „Það er engin spurning að vinnutímaskilgreining kennara styður ekki við framkvæmd skólastefnunnar Skóli án aðgreiningar, sem kallar m.a. á gríðarlega teymisvinnu. Það verður að koma þessari aldagömlu skilgreiningu út og koma fyrirkomulagi starfsins í það horf sem nútímaskólastarf kallar á. Vonandi náum við samningum um það.“
Ólafur Loftsson, formaður Félags grunnskólakennara, fellst ekki á að vinnutímaskilgreiningin hamli skólastarfi. „Fyrir það fyrsta er heimilt samkvæmt kjarasamningum að auka yfirráð skólastjórnenda yfir vinnutíma og binda hann meira á staðnum.“
„Það má annars velta því fyrir sér hvað menn telja sig fá fram með því að binda vinnutíma kennara meira í skólunum. Engin fagleg rök hafa heyrst í því sambandi og það hefur ekki verið rökstutt að skólastarfið verði betra ef kennarar vinna tíu tímum meira á viku í skólanum. Sveitarfélögin hafa sagt að þau séu tilbúin til að hækka launin til jafns við aðra háskólamenntaða starfsmenn ef vinnutíminn verði bundinn enn frekar. Ég hef ekki séð útfærslur á því hvernig þau hyggjast koma því í framkvæmd.“
Ólafur vísar til niðurstaðna nýjustu Pisa-rannsóknarinnar. „Sú Norðurlandaþjóð sem heldur helst sjó í þeirri rannsókn er Finnar, sú þjóð sem við höfum viljað horfa mest til sem fyrirmyndar í skólamálum. Þar hafa kennarar mikið sjálfstæði í vinnubrögðum. Þeir sem kenna móðurmálið, finnsku, eru með minnstu kennsluskylduna. Það er vegna þess að það er viðurkennt að það þurfi mikinn undirbúning fyrir slíka kennslu. Finnar koma vel út úr læsi og þetta ættum við að taka til fyrirmyndar.“