Horfur í vatnsbúskap Landsvirkjunar eru lakari en mörg undanfarin ár vegna úrkomuleysis og kulda á hálendinu síðastliðið vor og sumar. Innrennsli í lónin var talsvert undir meðallagi og ekki náðist að fylla þau öll í haust. Veturinn nú hefur einnig verið óvenjulega þurr og kaldur og innrennslið því áfram undir undir meðallagi.
Í ljósi stöðunnar hefur Landsvirkjun tilkynnt stórnotendum um mögulega skerðingu á afgangsorku ef ástand í vatnsbúskapnum batnar ekki á næstu vikum. Sérfræðingar Landsvirkjunar fylgjast grannt með þróun í vatnsbúskapnum og mun fyrirtækið bregðast við eftir atvikum. Ekki þarf blota nema í nokkra daga til ástandið batni umtalsvert, að því er fram kemur í fréttatilkynningu frá Landsvirkjun.
Verði skerðing að veruleika má reikna með að orkusala Landsvirkjunar geti dregist saman um 2% eða sem nemur allt að 260 GWst. Getur tekjusamdráttur fyrirtækisins þá numið allt að 700 milljónum króna. Hugsanleg skerðing getur varið frá miðjum febrúar til aprílloka.
Raforkusamningar Landsvirkjunar eru þannig upp byggðir að ákveðinn sveigjanleiki og heimild er til staðar til að skerða raforkuafhendingu í slökum vatnsárum ef þurfa þykir. Í samningum við stórnotendur er kveðið á um að allt að 10% af orkunni sem viðskiptavinir kaupa sé skerðanleg. Landsvirkjun er því heimilt að skerða orku til stóriðjunnar sem því nemur. Stóriðjufyrirtækin hafa þegar verið upplýst um stöðuna í vatnsbúskapnum og mögulega orkuskerðingu. Þau hafa, samkvæmt samningum, einn mánuð til þess að laga sig að breyttum aðstæðum.
Liðin eru 15 ár síðan Landsvirkjun þurfti síðasta að bregðast við lágri vatnsstöðu með skerðingu.
Á vefsíðu Landsvirkjunar er hægt fylgjast með vatnshæð Blöndulóns, Þórisvatns og Hálslóns frá degi til dags: www.landsvirkjun.is/Rannsoknirogthroun/Voktun