„Þessi ríkisstjórn vill ekki ganga í ESB“

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra. mbl.is/Árni Sæberg

„Það er ekk­ert til sem heit­ir könn­un­ar­viðræður, ekk­ert til sem heit­ir að kíkja í pakk­ann. Ef menn sækja um aðild að Evr­ópu­sam­band­inu þá vilja menn ganga í Evr­ópu­sam­bandið á for­send­um þess og þessi rík­is­stjórn vill ekki ganga í Evr­ópu­sam­bandið.“

Þetta sagði Sig­mund­ur Davíð Gunn­laugs­son, for­sæt­is­ráðherra, í sér­stakri umræðu um stöðu um­sókn­ar­inn­ar um inn­göngu Íslands í Evr­ópu­sam­bandið sem fram fór á Alþingi í dag. Máls­hefj­andi var Árni Páll Árna­son, formaður Sam­fylk­ing­ar­inn­ar. Kallaði Árni eft­ir því að fram færi þjóðar­at­kvæði um fram­hald um­sókn­ar­inn­ar sam­hliða sveit­ar­stjórn­ar­kosn­ing­um í vor og gagn­rýndi rík­is­stjórn­ar­flokk­ana harðlega fyr­ir að ætla ekki að standa við lof­orð um slíka at­kvæðagreiðslu.

Árni Páll beindi enn­frem­ur orðum sín­um að grein sem Ásmund­ur Ein­ar Daðason, þingmaður Fram­sókn­ar­flokks­ins, ritaði í Morg­un­blaðið í dag þar sem hann sagði þing­mann­inn hóta að ef ákveðið yrði í þjóðar­at­kvæði að halda um­sókn­ar­ferl­inu áfram myndi rík­is­stjórn­in gera það sem í henn­ar valdi stæði til þess að skemma fyr­ir ferl­inu. Sagði hann sjald­gæft að fá slíka inn­sýn inn í hug­ar­far for­ystu­manna í rík­is­stjórn og fyr­ir­litn­ingu þeirra á þjóðar­at­kvæðagreiðslum og þjóðar­vilja.

Þarf vilja til að ganga í ESB og póli­tíska for­ystu

Sig­mund­ur Davíð rifjaði upp stefnu rík­is­stjórn­ar sinn­ar þar sem í fyrsta lagi væri gert ráð fyr­ir hléi á um­sókn­ar­ferl­inu og síðan sett af stað vinna við út­tekt á stöðu ferl­is­ins og þróun mála inn­an Evr­ópu­sam­bands­ins sem væri í gangi. Í kjöl­far þeirr­ar vinnu yrði málið rætt og end­an­leg ákvörðun tek­in. Sagði hann þá umræðu sem færi fram um út­tekt­ina, bæði á þingi og úti í sam­fé­lag­inu, vera að sínu mati afar mik­il­væga fyr­ir fram­hald máls­ins. Þriðji hluti stefnu stjórn­ar­inn­ar væri sá að það skil­yrði væri sett fyr­ir því því að halda um­sókn­ar­ferl­inu áfram að það væri samþykkt í þjóðar­at­kvæðagreiðslu.

„En stjórn­ar­flokk­arn­ir báðir eru and­víg­ir aðild að Evr­ópu­sam­band­inu og Evr­ópu­sam­bandið sjálft hef­ur ít­rekað gert Íslend­ing­um grein fyr­ir því að um­sókn­ar­ríki þurfi að vilja ganga í sam­bandið og þar þurfi að vera skýr for­ysta stjórn­valda sem að leiði viðræðurn­ar með það að mark­miði að koma land­inu inn í sam­bandið enda þótt það þurfi að staðfesta aðild­ina í þjóðar­at­kvæðagreiðslu. Aðild­ar­viðræður að Evr­ópu­sam­band­inu snú­ast ein­mitt um það að ger­ast aðili að Evr­ópu­sam­band­inu eins og það er,“ sagði for­sæt­is­ráðherra enn­frem­ur.

Sig­mund­ur Davíð sagði að segja mætti að veg­ferð síðustu rík­is­stjórn­ar hafi verið víti til varnaðar í þess­um efn­um enda hafi þar sést hversu erfitt það hafi reynst að vera í um­sókn­ar­ferli að Evr­ópu­sam­band­inu þar sem rík­is­stjórn var klof­in í af­stöðu sinni til máls­ins. Hvað þá fyr­ir rík­is­stjórn sem væri and­víg aðild. Þá væri það miklu heiðarlegra gagn­vart sam­band­inu að vilji til þess að ganga þar inn lægi fyr­ir áður en um­sókn væri send. það væri enn­frem­ur það sem Evr­ópu­sam­bandið ætlaðist til.

Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar.
Árni Páll Árna­son, formaður Sam­fylk­ing­ar­inn­ar. mbl.is/Ó​mar Óskars­son
mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert