„Þessi ríkisstjórn vill ekki ganga í ESB“

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra. mbl.is/Árni Sæberg

„Það er ekkert til sem heitir könnunarviðræður, ekkert til sem heitir að kíkja í pakkann. Ef menn sækja um aðild að Evrópusambandinu þá vilja menn ganga í Evrópusambandið á forsendum þess og þessi ríkisstjórn vill ekki ganga í Evrópusambandið.“

Þetta sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, í sérstakri umræðu um stöðu umsóknarinnar um inngöngu Íslands í Evrópusambandið sem fram fór á Alþingi í dag. Málshefjandi var Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar. Kallaði Árni eftir því að fram færi þjóðaratkvæði um framhald umsóknarinnar samhliða sveitarstjórnarkosningum í vor og gagnrýndi ríkisstjórnarflokkana harðlega fyrir að ætla ekki að standa við loforð um slíka atkvæðagreiðslu.

Árni Páll beindi ennfremur orðum sínum að grein sem Ásmundur Einar Daðason, þingmaður Framsóknarflokksins, ritaði í Morgunblaðið í dag þar sem hann sagði þingmanninn hóta að ef ákveðið yrði í þjóðaratkvæði að halda umsóknarferlinu áfram myndi ríkisstjórnin gera það sem í hennar valdi stæði til þess að skemma fyrir ferlinu. Sagði hann sjaldgæft að fá slíka innsýn inn í hugarfar forystumanna í ríkisstjórn og fyrirlitningu þeirra á þjóðaratkvæðagreiðslum og þjóðarvilja.

Þarf vilja til að ganga í ESB og pólitíska forystu

Sigmundur Davíð rifjaði upp stefnu ríkisstjórnar sinnar þar sem í fyrsta lagi væri gert ráð fyrir hléi á umsóknarferlinu og síðan sett af stað vinna við úttekt á stöðu ferlisins og þróun mála innan Evrópusambandsins sem væri í gangi. Í kjölfar þeirrar vinnu yrði málið rætt og endanleg ákvörðun tekin. Sagði hann þá umræðu sem færi fram um úttektina, bæði á þingi og úti í samfélaginu, vera að sínu mati afar mikilvæga fyrir framhald málsins. Þriðji hluti stefnu stjórnarinnar væri sá að það skilyrði væri sett fyrir því því að halda umsóknarferlinu áfram að það væri samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu.

„En stjórnarflokkarnir báðir eru andvígir aðild að Evrópusambandinu og Evrópusambandið sjálft hefur ítrekað gert Íslendingum grein fyrir því að umsóknarríki þurfi að vilja ganga í sambandið og þar þurfi að vera skýr forysta stjórnvalda sem að leiði viðræðurnar með það að markmiði að koma landinu inn í sambandið enda þótt það þurfi að staðfesta aðildina í þjóðaratkvæðagreiðslu. Aðildarviðræður að Evrópusambandinu snúast einmitt um það að gerast aðili að Evrópusambandinu eins og það er,“ sagði forsætisráðherra ennfremur.

Sigmundur Davíð sagði að segja mætti að vegferð síðustu ríkisstjórnar hafi verið víti til varnaðar í þessum efnum enda hafi þar sést hversu erfitt það hafi reynst að vera í umsóknarferli að Evrópusambandinu þar sem ríkisstjórn var klofin í afstöðu sinni til málsins. Hvað þá fyrir ríkisstjórn sem væri andvíg aðild. Þá væri það miklu heiðarlegra gagnvart sambandinu að vilji til þess að ganga þar inn lægi fyrir áður en umsókn væri send. það væri ennfremur það sem Evrópusambandið ætlaðist til.

Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar.
Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Ómar Óskarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert