Efla áhuga drengja á bókum

Soffía Karlsdóttir, sviðsstjóri menningar- og samskiptasviðs Seltjarnarnesbæjar, vill sjá vitundarvakningu.
Soffía Karlsdóttir, sviðsstjóri menningar- og samskiptasviðs Seltjarnarnesbæjar, vill sjá vitundarvakningu. mbl.is/Kristinn

Bókasafn Seltjarnarness hleypti í dag af stað sérstakri vitundarvakningu meðal unglingsdrengja á Seltjarnarnesi, en markmiðið er að auka lestur þeirra á bókum. Soffía Karlsdóttir, sviðsstjóri menningar- og samskiptasviðs Seltjarnarnesbæjar, segir að hugmyndin hafi kviknað í kjölfar niðurstaðna PISA-könnunar OECD, sem mikið hefur verið rætt um undanfarin misseri.

„Þar kom fram að strákar lesa sér mun minna til yndis en stúlkur. Könnunin náði til fimmtán ára drengja þannig að við ákváðum að einblína á þann aldur. Ég ákvað, í samvinnu við grunnskólann á Seltjarnarnesi, að boða drengi í níunda og tíunda bekk á bókasafnið í dag ásamt Andra Snæ Magnasyni rithöfundi. Þannig hleyptum við þessari vakningu af stað,” segir Soffía.

Þriðjungur getur ekki lesið sér til gagns

Nær þriðjungur fimmtán ára stráka á Íslandi getur ekki lesið sér til gagns samkvæmt niðurstöðum könnunarinnar. Frammistaða Íslands er lakari miðað við sömu könnun sem kynnt var fyrir sex árum og sagði Illugi Gunnarsson, menningar- og menntamálaráðherra, að niðurstöðurnar væru mikið áfall. „Það að 30% drengja geti illa lesið sér til gagns er ekki bara vandamál þessa einstaklinga, heldur líka vandamál alls samfélagsins,“ sagði hann.

Andri Snær var sérstakur gestur bóksafnsins í morgun en hann ræddi vítt og breytt um mátt og megin bókarinnar við drengina. Segir Soffía að hann hafi höfðað vel til þeirra og vakið athygli þeirra á mörgu, þar á meðal ljóðum.

Útbjuggu bókalista

Soffía segir að starfsfólk bókasafnsins hafi að undanförnu tínt til bækur og komið upp sýningu á bókasafninu á bókum sem geti fallið ungum drengjum vel í geð. Helst séu það unglingabækur, en „við leyfðum okkur líka að fara út fyrir rammann. Andri Snær talaði einmitt um að maður ætti að lesa allt og það er auðvitað það sem viljum hvetja ungmenni til að gera,“ segir hún.

Þá hefur starfsfólk bókasafnsins útbúið bóka-, áhugasviðs- og atriðaorðalista sem lesendur geta glöggvað sig á með það fyrir augum að takmarka bókaleitina við áhugamál þeirra. Listinn er bæði aðgengilegur á bókasafninu sem og á vefsíðu þess.

Soffía hvetur ekki síður foreldra til að skoða listann í því skyni að fá lánaðar bækur sem gætu höfðað til þeirra barna. „Ég þekki það af eigin raun. Þegar ég tek stelpuna mína með mér á bókasafn og segi henni að skoða bækurnar, þá sér hún alltaf eitthvað sem henni finnst skemmtilegt. Það þarf oft aðeins að ýta þeim áfram og sýna þeim bækurnar til að kveikja áhugann.“

Að sögn Soffíu ákváðu þeir íslenskukennarar, sem fylgdu drengjunum í morgun, að skipuleggja heimsóknir annarra ungmenna, þá yngri nemendur, við skólann í kjölfarið til þess að kynna fyrir þeim allar bækurnar. 

Yngri strákarnir áhugasamari

Aðspurð segir Soffía að fimmtán ára strákar sæki sér ekki í eins miklum mæli bækur á bókasafni og stelpurnar. „Við merkjum samt það að yngri drengir sækja bækur á bókasafninu alveg til jafns við stelpur og vonandi mun það skila sér áfram, að þeir venjist því þegar þeir verða eldri,“ segir hún.

Hún bendir jafnframt á að þrátt fyrir að áhugi drengja á þessum aldri á lestri bóka sé ekki mikill, þá hafi lesturinn aukist frá því í haust. Einföld ástæða sé fyrir því „Grunnskólinn ákvað í haust að allar kennslustundir skyldu hefjast á yndislestri. Fyrstu tuttugu mínútur kennslutímans fara því í lestur. Þá er bara þögn og hver les sína bók, sem verður að vera á íslensku,” útskýrir hún. „Þetta hefur gefist mjög vel og hefur útlánum til dæmis fjölgað mjög.“

Útlánin hafi kannski ekki aukist mjög á Bókasafni Seltjarnarness, þar sem í báðum grunnskólunum, Valhúsaskóla og Mýrarhúsaskóla, má finna mjög góð bókasöfn sem krakkarnir leita til.

Úrvalið meira en áður

- Er mikið úrval af bókum fyrir drengi á þessum aldri?

„Það hefur stórlega aukist. Við ræddum það einmitt í morgun. Ég spurði Andra Snæ hvaða bækur hefðu helst verið í boði þegar hann var á þeirra aldri og hann nefndi að á þeim tíma hefðu það aðallega verið einhverjar hallærislegar, rómantískar unglingabækur sem enginn samsamaði sig við.

Það hefur orðið gríðarleg aukning með öllum þessum fantasíubókum. Þær höfða til stúlkna, drengja og einnig til fullorðinna,” segir hún. Harry Potter-bækurnar hafi til dæmis haft mikið að segja og komið með nýja vídd í bókmenntaheiminn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka