Engin „óafturkræf“ aðlögun að ESB

Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar.
Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Ómar

„Við fengum það í fyrsta lagi samþykkt í aðildarviðræðunum að ekki yrðu gerðar neinar óafturkræfar breytingar í stofnanaaðlögun á aðildarumsóknarferlistímanum. Það liggur fyrir.“

Þetta sagði Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, í morgunútvarpi Rásar 2 í morgun þar sem rætt var um umsóknina um inngöngu Íslands í Evrópusambandið. Hann sagði að Íslendingar hefðu hins vegar þurft að leggja fram tímaáætlanir um það með hvaða hætti reglur sambandsins yrðu innleiddar ef til þess kæmi að Ísland gengi þar inn.

„Þannig var þetta útfært á fjöldamörgum sviðum í aðildarviðræðuferlinu og við skulum þá bara láta á það reyna ef einhverjar slíkar kröfur koma fram um einhverjar óafturkræfar breytingar. Ég varð aldrei var við þær,“ agði Árni. Í þættinum tókust á þeir Árni og Ásmundur Einar Daðason, þingmaður Framsóknarflokksins.

Árni lagði áherslu á að umsóknarferlinu að Evrópusambandinu væri haldið áfram til þess að komast að því hvers konar samningur væri í boði. Hann sagðist hafa skilning á því sjónarmiði að til þess þyrfti ríkisstjórn hlynnta inngöngu en forystumenn núverandi stjórnarflokka hefðu hins vegar talað á þann veg fyrir kosningar að hægt væri að kjósa þá og þjóðaratkvæði færi fram um framhald ferlisins.

Ásmundur sagði ófært að halda áfram með umsóknarferlið að Evrópusambandinu nema bæði sitjandi ríkisstjórn og þjóðin vildi ganga í sambandið. Hvorugt væri hins vegar raunin eins og staðan væri í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert