Lögregla hefur ákært þrjá þeirra sem handteknir voru í mótmælunum í Gálgahrauni í októbermánuði síðastliðnum. Þetta staðfestir Skúli Bjarnason, lögmaður Hraunavina, í samtali við mbl.is. Segir hann að mótmælendurnir hafi verið ákærðir fyrir „að standa ekki upp fyrir lögreglunni“.
Um þrjátíu manns voru handteknir í mótmælunum gegn fyrirhuguðum vegaframkvæmdum í Gálgahrauni í október.
„Þetta slær nú fólk undarlega að ríkisvaldið skuli ganga svo langt að ákæra í málinu,“ segir Skúli. Mótmælin hafi farið með friðsælum hætti og aðgerðir lögreglu hafi ekki verið fólgnar í öðru en að bera fullorðið fólk aðeins til, segir hann jafnframt.
„En að bæta gráu ofan á svart og ákæra þetta fólk, friðsæla eldri borgara í mörgum tilfellum. Það er umhugsunarefni hvort að við ætlum virkilega að fara að breyta þessu ríki - ágæta ríki - í lögregluríki,” segir hann.
„Við ættum að hugsa okkur um tvisvar áður en við förum að fordæma Rússa fyrir aðförina að Pussy Riot.“
- Má búast við að fleiri verði ákærir?
„Ég þori ekkert um það að segja. En það er auðvitað ljóst að margir hafa verið í sömu sporum og þetta fólk sem nú er búið að ákæra,“ segir Skúli.