Fjórðungur þátttakenda í könnun sem lögð var fyrir fólk í stjúptengslum telja að foreldri eigi ekki að greiða meðlag, fari fyrrverandi maki í nýtt samband. Þá treystir stór hluti foreldra ekki fyrrverandi maka til að sjá um heimanám barnanna. Þetta kemur fram í niðurstöðum könnunarinnar sem lögð var fyrir í haust.
Þær verða kynntar á málþingi Velferðarvaktarinnar í samstarfi við félagsmálaráðuneytið, menntamálaráðuneytið, Heimili og skóla, Kennarasamband íslands og Félags stjúpfjölskyldna í dag. Málþingið ber yfirskriftina Tekur samfélagið mið af margbreytileika fjölskyldugerða?.
Markmið könnunarinnar var að kanna samskipti, viðhorf og líðan foreldra og stjúpforeldra í stjúpfjölskyldum ásamt þjónustuþörf stjúpfjölskyldna. Könnunin var send til 367 einstaklinga. Svarhlutfall þeirra sem eru í stjúptengslum var 62,1% og er því heildarfjöldi þeirra sem taka þátt í könnuninni og eru í stjúptengslum 238 manns. Að sögn Valgerðar Halldórsdóttur, félagsráðgjafa og formanns Félags stjúpfjölskyldna, gefa niðurstöðurnar ákveðna vísbendingu um stöðuna eins og hún er í dag og hvað þarf að kanna nánar.
Tæp áttatíu og tvö prósent þeirra sem svöruðu sögðust vera mjög sammála eða mjög sammála því að það væri flóknara að vera í stjúpfjölskyldu en þau áttu von á. Þá sögðust 37,5% sammála því að stjúpforeldri eigi að koma í stað foreldris þegar það getur ekki sinnt börnum sínum. 37% þeirra sem svöruðu sögðust vera mjög ósammála því að þeim finndist auðvelt að biðja fyrrverandi tengdaforeldra um aðstoð með börnin.
Um helmingur þátttakenda virtust vera sammála því að stjúpforeldrar eigi að borga til jafns við foreldra fyrir þau börn sem eru búsett á heimilinu. Tuttugu og fimm prósent þátttakenda virtust einnig vera sammála um að foreldri eigi ekki að borga meðlag með barni sem býr bæði með foreldri og stjúpforeldri. Að lokum var rúmlega helmingur þeirra sem tóku þátt ósammála því að foreldri sem borgar meðlag eigi ekki að borga umfram meðlag með börnum sínum.