Það er óhætt að segja að ný kvikmynd Bens Stillers, The Secret Life of Walter Mitty, sé mikil og góð landkynning fyrir Ísland. Tökurnar fóru að stórum hluta fram á Íslandi, þar á meðal í Grundarfirði, Stykkishólmi og á Seyðisfirði, og hafa margir erlendir fjölmiðlar fjallað um stórkostlega náttúru landsins frá því að myndin var fyrst frumsýnd.
Sarah Sekula, pistlahöfundur hjá Fox News, mælir í nýlegum pistli eindregið með því að ferðamenn feti í fótspor draumóramannsins Mittys, sem myndin fjallar um, og leggi leið sína til Íslands.
Titill pistilsins er: „Upplifðu Ísland að hætti Walters Mittys“.
Í pistlinum fjallar hún meðal annars um fallegt landslag hér á landi, vingjarnlega heimamenn, stórfenglegt dýralíf og fyrirtaks mat, „svo lengi sem maður heldur sig frá kæstum hákarli“.
„Landslagið er svo öðruvísi. Þú getur farið upp á jökul sem er aðeins í nokkur hundruð metra hæð og þér líður eins og þú eigir heiminn,” er haft eftir Ben Stiller sjálfum, sem bæði leikstýrði og lék aðalhlutverkið í myndinni. „Allt sem þú sérð í órafjarlægð er snjór og stórir klettar.“
Pistlahöfundurinn leggur til dæmis til að ferðamaðurinn heimsæki Hveradali, Fjallsárlón, Garð á Reykjanesi, þar sem nokkrir hljómsveitarmeðlimir Of Monsters and Men ólust upp, og Stykkishólm. Allt eru þetta staðir sem Stiller, ásamt tökuliðinu, heimsótti á meðan hann dvaldi hér á landi.
Þá sé nauðsynlegt að ferðamaðurinn leggi leið sína til Hafnar í Hornafirði. „Á meðan þú dvelur á Höfn skaltu spyrja um Stiller og heimsókn hans, allir hafa einhverja sögu að segja,” segir í pistlinum. „Hann leigði þar hús af tannlækni á meðan tökum stóð og borðaði á veitingastaðnum Humarhöfnin, sem er frægur fyrir humarinn sinn.”
Þá hvetur pistlahöfundurinn ferðamenn til að sækja Grundarfjörð heim, en þar fór Mitty um hjólandi í myndinni. Bendir höfundurinn á að hvalaskoðun sé vinsæl í þessum þúsund manna bæ og að sjá megi þar fjölda hvalategunda, en umhverfis Ísland finnast að jafnaði um tuttugu hvalategundir.
Að lokum mælir pistlahöfundur Fox News með því að ferðamaðurinn kíki við á Seyðisfirði, þar sem Mitty fer um á hjólabretti í eftirminnilegu atriði í myndinni. Mælir hún sérstaklega með fjallaklifri og að ferðamaðurinn spreyti sig á kayak.
The Secret Life of Walter Mitty var frumsýnd hér á landi í byrjun janúarmánaðar.