Samkirkjulega bænavikan hófst í kvöld þegar gengið var frá Hallgrímskirkju að Hvítasunnukirkjunni, Fíladelfíu. Þar fór fram samkoma, en prédikari var Karl Sigurbjörnsson, biskup.
Á samkomunni í kvöld komu fulltrúar kristinna kirkna og trúfélaga saman og báðu um einingu. Dagskráin heldur svo áfram alla næstu viku með bænastundum, málstofum o.fl.
Bænavikan er undirbúin af samkirkjulegum samtökum sem nefnast Alkirkjuráðið (World Council of Churches) og kaþólsku kirkjunni. Þema ársins er úr fyrsta Korintubréfi 1: 1-17, „Er þá Kristi skipt í sundur?“
Það er fleira að gerast í kirkjum landsins. Fjöldi fólks ætlar að ganga í hjónaband á árinu. Þessar vikurnar eru margir farnir að huga að undirbúningi, velja sér kirkju fyrir athöfnina og fá tónlistarfólk og prest til að vera með sér og gera daginn sem eftirminnilegastan. Guðsþjónusta verður í Bústaðakirkju kl. 14 á morgun, sunnudag, en þá verður fjallað sérstaklega um hjónabandið. Guðspjall þessa dags segir frá brúðkaupinu í Kana sem er líklegasta frægasta brúðkaup veraldarsögunnar.
Í prédikuninni mun sr. Árni Svanur Daníelsson ræða um hjónin sem gengu í hjónaband í brúðkaupinu fræga í Kana, fjalla um það sem einkennir gott hjónabandi og uppbyggileg samskipti.