„Það hefur aldrei verið lokið við neina samningsgerð. Síðasta ríkisstjórn lauk ekki þessu máli og ekki síðasti ráðherra heldur. Það er ekkert óeðlilegt við það að ný ríkisstjórn vilji fara yfir forsendur ýmissa hluta sem lagt er upp með af fyrri stjórnvöldum.“
Þetta segir Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra og vísar í máli sínu til ummæla Gunnars Einarssonar, formanns stjórnar Sambands sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu og stjórnarmanns í stjórn slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins, sem í samtali við mbl.is hélt því fram að fyrir liggi samkomulag sem aðilar hafi sætt sig við. Þannig gagnrýnir Gunnar þá afstöðu heilbrigðisráðherra að vilja semja um málið frá grunni.
„Þessi samkomulagsgrunnur sem gerður var í upphafi síðasta árs miðar við að ríkið greiði sveitarfélögunum á höfuðborgarsvæðinu ákveðna fjármuni fyrir hagræðið af því að þurfa ekki að gera þetta á eigin vegum,“ segir Kristján Þór.
Hefur ráðherrann gert ákveðnar athugasemdir við þær fjárhæðir sem í samkomulagsgrunninum voru og er málið nú til skoðunar innan ráðuneytisins svo hægt sé að ganga frá samningi við sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu á þeim grunni að ríkið greiði þann kostnað sem sjúkraflutningar hafa í för með sér.
„Stjórn slökkviliðsins hefur hins vegar sagt að annað hvort verði samið um það sem þeir vildu fá fyrir ári síðan eða ekki neitt. Það þykir mér einkennileg afstaða,“ segir Kristján Þór og bætir við að verði samstarf ríkis og sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu brotið upp kallar það á aukna fjárveitingu frá bæði ríki og sveitarfélögum.