„Það gæti komið til lokana á vegum í kringum Skaftá en það verður metið þegar líður á kvöldið,“ segir Víðir Reynisson, deildarstjóri almannavarnardeildar ríkislögreglustjóra, en rennsli Skaftár við Sveinstind hefur aukist síðasta sólarhring og rafleiðni einnig. Þessar athuganir þýða að Skaftárhlaup er hafið.
Almannavarnardeild ríkislögreglustjóra fundar nú á símafundi með sérfræðingum Veðurstofu Íslands. Að sögn Víðis er nú verið að fara yfir stöðu mála og meta næstu skref.
„Í fyrramálið, þegar bjart er orðið yfir jöklinum, verður væntanlega flogið yfir svæðið til að fá staðfestingu á því úr hvorum katli hlaupið kemur,“ segir Víðir.
Flugvél Landhelgisgæslu Íslands, TF-SIF, er í umfangsmikilli skoðun og verður ekki flughæf út þennan mánuð. Aðspurður segir Víðir hins vegar áformað að notast við þyrlur í eftirlitsfluginu.
„Það eru mælitæki uppi á jöklinum sem að vísindamenn hafa áhuga á að skoða. Það er því ákveðinn hentugleiki að nota þyrlu ef af fluginu verður.“
Varðstjóri lögreglunnar á Kirkjubæjarklaustri segir í samtali við mbl.is að engin brennisteinslykt sé í bænum. Aðspurður segir hann næstu skref hjá sér vera þau að hafa samband við efstu bæi í Skaftártungu. Einnig er frístundabyggð í Skaftárdal og verður athugað með fólk þar.