Harma ummæli um Austurríki

Björn Bragi Arnarsson
Björn Bragi Arnarsson mbl.is/Eva Björk

Í sameiginlegri yfirlýsingu HSÍ, handknattleikssambands Austurríkis og handknattleikssambands Evrópu (EHF) er greint frá því að landslið Íslands og Austurríkis munu leika vináttulandsleik í apríl á þessu ári vegna ummæla í leik Íslands og Austurríkis. Forsvarsmenn sambandanna harma ummælin.

Boðað er til leikjanna til að undirstrika samstarfsvilja sambandanna, en ummæli sem Björn Bragi Arnarsson lét falla í leik Íslands og Austurríkis vöktu hörð viðbrögð í Austurríki og víðar.

Í tilkynningunni segir að ummælin hafi verið til umfjöllunar í fjölmiðlum um allan heim. Jean Brihault, forseti EHF segir skýrt að rasismi og stjórnmál eigi ekki heima í alþjóðlegri íþrótt, og eigi engan stað á þessu móti. Ummælin sem féllu í Ríkisútvarpinu væru sorgleg, en hann fagnar þessari sameiginlegu yfirlýsingu.

Gerhard Hofbauer, forseti austurríska handknattleikssambandsins segir atvikið augljóslega óþægilegt fyrir handbolta í heild, sem og mótið, en það væri skilningur sambandsins að þetta væri einangrað atvik, sem væri ekki til marks um skoðanir íslensku þjóðarinnar eða HSÍ á nokkurn hátt. Til marks um samstarfsvilja þjóðanna ætla austurríkismenn að spila tvo vináttulandsleiki á Íslandi í apríl á þessu ári. 

Í yfirlýsingunni er margítrekað að forsvarsmenn Ríkisútvarpsins hafi margbeðist afsökunar á ummælunum. Hins vegar hafi verið ákveðið að víkja Birni Braga ekki úr starfi. Guðjón Valur Sigurðsson, fyrirliði íslenska landsliðsins, verður í viðtali í austurríska ríkissjónvarpinu eftir leik Íslands og Makedóníu.

RÚV biður Austurríkismenn afsökunar

Ummælin draga dilk á eftir sér

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert