Ógeðfellt að blanda ættingjum í málið

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra. mbl.is/Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Forsætisráðherra sagði á Alþingi í dag að það væri ekki rétt að fyrirkomulag frískuldamarks vegna sérstaks skatts á fjármálafyrirtæki kæmi sé best fyrir MP banka. Þannig væri hann einn um það af minni bönkum landsins að þurfa að greiða slíkan skatt. Þeir bankar sem væru minni en hann greiddu engan skatt.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, svaraði þar fyrirspurn frá Árna Páli Árnasyni, formanni Samfylkingarinnar, sem innti ráðherrann eftir því með hvaða hætti hann hefði komið að ákvörðun um 50 milljarða króna frískuldamark og hvernig hann hafi beitt sér í þeim efnum. Sigmundur sagðist ekki hafa vitað af því hvernig sú upphæð hafi verið fengin. Ólíkt Árna Páli sjálfum sem hafi tekið þátt í þeirri vinnu í efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis. Vísaði hann þar í minnihlutaálit í nefndinni sem Árni Páll stóð að þar sem tekið var jákvætt í slíkt frískuldamark.

„Ekki aðeins er háttvirtur þingmaður það ómerkilegur að blanda ættingjum og samstarfsmönnum stjórnmálamanna inn í pólitískt skítkast til að reyna að koma á þá höggi heldur gerir hann það með því að dylgja um ákvörðun sem hann kom sjálfur beint að ólíkt mér. Í þessu máli nær háttvirtur þingmaður nýjum botni í þeirri ógeðfelldu pólitík sem hann er farinn að stunda líklegast til að verjast í vanda í sínum heimavígstöðvum í sínum flokki,“ sagði Sigmundur.

Árni Páll svaraði því til að hann ætlaði ekki að elta ólar við fúkyrðaflaum forsætisráðherra. Ekki væri um dylgjur að ræða þegar um raunveruleg tengsl væri að ræða og eðlilegt að ráðherrann gerði grein fyrir aðkomu sinni að málinu. Sagði hann það staðreynd að frískuldamarkið þýddi að bankaskattur MP banka lækkaði um 78%. Sigmundur benti hins vegar á að miðað við þá forsendu myndu þeir bankar sem væru minni en MP banki greiða 100% minni skatt en áður.

Frétt mbl.is: Efnislegu rökin liggja ekki fyrir

Frétt mbl.is: Talan líklega komin frá nefndinni

Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar.
Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Ómar Óskarsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert