Óvissa ríkir um framtíð áfengismeðferðar á Vogi að mati Þórarins Tyrfingssonar, yfirlæknis hjá SÁÁ. Þeir sem þangað leita meðferðar eru veikari nú en var fyrir nokkrum árum og vísa hefur þurft fárveiku fólki frá. Ríkið greiðir fyrir meðferð 1.700 sjúklinga á ári, en líklega munu 2.200 leggjast inn á árinu og þarf SÁÁ að brúa bilið með eigin fé. Munurinn er um 200 milljónir. Unnið er að rekstraráætlun fyrir Vog og þar er m.a. lagt til að þjónusta verði skert.
Þórarinn segir málið snúast um hvaða rétt áfengissjúklingar eigi til heilbrigðisþjónustu. „Hver á að greiða það? Sjúkratryggingar eða SÁÁ?“ spyr Þórarinn og tekur dæmi um niðurgreiðslu lyfja við morfínfíkn. „Við hjá SÁÁ teljum að sjúkratryggingar eigi að greiða þau lyf niður að hluta, rétt eins og önnur nauðsynleg lyf,“ segir Þórarinn. „Við höfum greitt þessi lyf fyrir okkar sjúklinga frá 1999, núna greiðum við fyrir um 90 manns á ári og það eru rúmar 30 milljónir árlega.“