Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra hefur sent stjórnum fyrirtækja sem eru að hluta eða öllu leyti í ríkiseigu bréf með tilmælum vegna gjaldskrármála.
Þar segir hann að verði kjarasamningarnir staðfestir muni ríkisstjórnin taka til endurskoðunar og lækkunar nýálögð gjöld samkvæmt lögum um ýmsar forsendur frumvarps til fjárlaga. Miðað er við að gjaldskrárhækkanir ríkisins verði undir verðbólgumarkmiði Seðlabanka Íslands næstu tvö árin.
„Mikilvægt er að fyrirtæki í ríkiseigu taki virkan þátt í þeirri viðleitni að draga úr hækkun verðlags og efni ekki til hækkana umfram það sem algjörlega nauðsynlegt getur talist.
Því er þeim eindregnu tilmælum beint til allra fyrirtækja í ríkiseigu að fyllsta aðhalds verði gætt varðandi breytingar á gjaldskrám og að þær ákvarðanir um gjaldskrárbreytingar sem þegar hafa verið ákveðnar verði endurmetnar í ljósi ofangreindra markmiða,“ segir meðal annars í bréfinu.
Bréfið er eftirfarandi:
„Í aðdraganda að gerð kjarasamninga var lögð áhersla á það af hálfu allra sem að komu að skapaðar yrðu forsendur fyrir auknum kaupmætti með lágum nafnlaunabreytingum og verðlagsaðhaldi. Hin þráláta verðbólga sem ríkt hefur á Íslandi minnkar samkeppni, hækkar vexti, slævir verðskyn og heldur niðri lífskjörum. Ríkisstjórnin studdi þessa viðleitni samningsaðila með yfirlýsingum frá 15. nóvember og 21. desember sl.
Verði kjarasamningar á almennum markaði staðfestir mun ríkisstjórnin taka til endurskoðunar og lækkunar nýálögð gjöld samkvæmt lögum um ýmsar forsendur frumvarps til fjárlaga (verðlagsbreytingar ofl). Miðað er við að gjaldskrárhækkanir ríkisins verði undir verðbólgumarkmiði Seðlabanka Íslands næstu tvö árin. Í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar segir einnig að ríkisstjórnin muni beita sér fyrir því að fyrirtæki í ríkiseigu, þ.m.t. orkufyrirtæki, gæti ítrasta aðhalds við gjaldskrárbreytingar á yfirstandandi ári.
Mikilvægt er að fyrirtæki í ríkiseigu taki virkan þátt í þeirri viðleitni að draga úr hækkun verðlags og efni ekki til hækkana umfram það sem algjörlega nauðsynlegt getur talist. Ljóst er að eigi fyrirætlanir um lágar nafnlaunabreytingar og aukinn kaupmátt að ganga eftir er nauðsynlegt að draga úr eða koma í veg fyrir eins og mögulegt er hækkanir sem áhrif hafa á afkomu launþega.
Því er þeim eindregnu tilmælum beint til allra fyrirtækja í ríkiseigu að fyllsta aðhalds verði gætt varðandi breytingar á gjaldskrám og að þær ákvarðanir um gjaldskrárbreytingar sem þegar hafa verið ákveðnar verði endurmetnar í ljósi ofangreindra markmiða.“