95,5% viðmælenda í Sunnudagsmorgni af höfuðborgarsvæðinu

Gísli Marteinn Baldursson
Gísli Marteinn Baldursson mbl.is

Sveinn Arnarsson, ritstjóri Akureyri Vikublaðs, skrifar á vef blaðsins að af þeim 110 viðmælendum sem hafi verið gestir í þættinum Sunnudagsmorgunn hafi 95,5% þeirra, 107 viðmælendur, verið af höfuðborgarsvæðinu, en einungis 4,57%, þrír talsins, búi utan þess. Þar af búi tveir í útlöndum.

„Í sjónvarpinu er eiginlega aðeins einn þáttur sem sinnir þjóðfélagi og pólitík. Hann heitir „Sunnudagsmorgunn’’ í umsjón Gísla Marteins Baldurssonar. Hann hefur gefið það út sjálfur að hann ætli að passa vel upp á kynjahlutföll og að engum pólitískum skoðunum sé hyglt í þættinum,“ skrifar Sveinn á vef Akureyri Vikublaðs.

Það er vel og þakkar maður fyrir að þáttastjórnendur gefi út svona yfirlýsingar á samfélagsmiðlum. Það styrkir mann í þeirri trú að þeir ætli virkilega að standa sig. Vera meðvitaðir um hlutverk sitt sem þáttastjórnendur í sjónvarpi í almannaeigu.

Þar sem þátturinn er sá eini í sjónvarpinu sem sérhæfir sig í að ræða um þjóðfélagið sem við búum í, pólitíkina og samfélagsleg málefni, ákvað ég að taka saman viðmælendur í Sunnudagsmorgni á Rúv. Ég tel þetta vera lýðræðislegt hlutverk mitt, verandi hluti af þessu samfélagi og einn af hluthöfum í útvarpinu (Þó vissulega haldi Illugi Gunnarsson á eina hlutabréfinu).

Viðmælendur hingað til eru 110 talsins. Sumir hverjir eru taldir tvisvar vegna þess að þeir hafa einfaldlega komið tvisvar sinnum í þáttinn.  64 karlar hafa komið í þáttinn, og 46 konur. 58.2% karlar á móti 41.8% kvenna. Það er auðvitað síðan mat hvers og eins hvort þessi skipting sé „nógu góð’’. Auðvitað viljum við sjá sem jafnasta kynjahlutfall. Ég er síðan ekki maður að dæma það hvort einhver slagsíða sé á hinu pólitíska spjalli svo ég ætla mér að sleppa þeim samkvæmisleik.

Hvað varðar skiptingu viðmælenda eftir búsetu er myndin einföld. Af 110 einstaklingum sem hafa verið í þættinum hjá Gísla Marteini, eru 107 íbúar höfuðborgarsvæðisins, en þrír utan þess. 97.3% á móti 2.7%. Tveir af þessum þremur búa erlendis. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir og Baltasar Kormákur. Baltasar er þó mestmegnis í Skagafirðinum þegar hann er heima,“ skrifar Sveinn á vef blaðsins.

Athugasemd sett inn klukkan 6:

Rangt var farið með í fyrirsögn og fréttinni um hlutfallið milli höfuðborgarsvæðisins og landsbyggðarinnar í pistli Sveins og um leið á mbl.is. Í stað 97,3% og 2,7% eru hlutföllin 95,5% og 4,5%. Beðist er afsökunar á þessu.

Athugasemd sem birt er á vef Akureyrarblaðs:

ATHUGASEMD(02:41): Gísli Marteinn Baldursson benti mér, réttilega, á að tveir einstaklingar hafi ekki ratað í réttan flokk. Þeir Halldór Halldórsson og Sigurður Ingi Jóhannsson. Ég samþykkti þau rök hans og breytti þannig upphaflega pistlinum.  Eftir stendur hlutfallið 105 á móti 5, en ekki 107 á móti 3. Bið ég Gísla Martein bæði afsökunar á þessari handvömm minni sem og seinagangi í að leiðrétta pistilinn. Að sama skapi  þakka ég honum fyrir málefnalega umræðu á Twitter um efni pistilsins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert