Tíðni ristilkrabbameins hefur aukist mikið hér á landi á undanförnum árum og láta nú fimmtíu og tveir lífið á ári hverju vegna meinsins. Friðbjörn R. Sigurðsson, yfirlæknir almennra lyflækninga á Landspítalanum, segir mikilvægt að hefja skipulega skimun vegna meinsins.
„Landlæknir mælti með skimun fyrir um áratug fyrir krabbameini í ristli og endaþarmi,“ segir Friðbjörn í samtali við mbl.is. Mörg lönd hafa þegar hafið skipulega skimun, líkt og skimun fyrir brjósta- og leghálskrabbameini. Þar má nefna Bretland, Norðurlöndin og Þýskaland. Ljóst er að Ísland er á eftir öðrum löndum í þessum málum.
„Á síðustu fimmtíu árum hefur tíðni krabbameins í ristli og endaþarmi þrefaldast hjá körlum og tvöfaldast hjá konum“, segir Friðbjörn. Hann bendir á að þjóðin muni eldast á næstu árum og ef ekkert verði aðhafst muni sjúkdómurinn taka mikinn toll. Rætt verður um tíðni ristilkrabbameina á læknadögum sem nú fara fram í Hörpu.
Fimmtíu og tveir sjúklingar láti lífið á ári hverju vegna ristilkrabbameins. „Hvað ef ein fokker flugvél myndi farast á hverju ári?“ spyr Friðbjörn og veltir fyrir sér hversu mikla athygli það myndi fá, miðað við þann fjölda einstaklinga láta lífið vegna krabbameinsins.
Tíðni ristilkrabbameins hefur aukist hér á landi líkt og hjá mörgum öðrum vestrænum þjóðum. Ástæða aukningarinnar er ekki þekkt. „Það er klárlega eitthvað í umhverfinu eða í því sem við neytum sem gæti skýrt þessa aukningu. Nákvæmlega hvað það er höfum við ekki geta sýnt með óyggjandi hætti,“ segir Friðbjörn.
„Við læknarnir hvetjum til umræðu og vekjum athygli á málefninu en heilbrigðiyfirvöld verða að taka af skarið og ákveða hvort ekki sé tímabært að koma þessum ráðleggingum landlæknis á fót,“ segir Friðbjörn. Hann bendir á að ef ekki verði farið út í skipulega skimun vegna ristilkrabbameins, sé nauðsynlegt að skrá þær óskipulegu skimanir sem gerðar eru ár hvert. Þannig verði hægt að meta árangur skimunarinnar.
Sigríður Snæbjörnsdóttir, verkefnastjóri hjá Krabbameinsfélagi Íslands, vakti athygli á mikilvægi hópleitar að ristilkrabbameini í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag. „Þetta hefur verið rætt í áratugi. Öll gögn liggja fyrir og ávinningurinn er svo augljós,“ segir hún í samtali við mbl.is. „Fjárhagslegi ávinningurinn er einnig svo mikill. Heilbrigðiskerfinu munar um hvern veikan sjúkling. Því höfum við allt að vinna til að fara af stað með svona leit.“
Sigríður vísar í niðurstöður danskrar rannsóknar en ætla má að hópleit í aldurshópnum 60 til 69 ára hér á landi geti leitt til 18% lækkunar á dánartíðni og forðað 17 manns frá dauða ef þessum aldurshópi er fylgt eftir í 10 ár. Hér er gert ráð fyrir að leitað sé að blóði í hægðum.
Fyrst og fremst hefur verið mælt með tveimur aðferðum í hópleit að æxlum í ristli og endaþarmi, að sögn Sigríðar. „Annaðhvort er leitað að leyndu blóði í hægðum eftir ákveðnum viðurkenndum reglum og eru þeir sem greinast með blóð ristilspeglaðir,“ segir Sigríður. „Hins vegar að gera ristilspeglun beint á undanfarandi leitar að blóði í hægðum.“ Sigríður segir að báðar aðferðirnar hafi sína kosti og galla. Almennt megi segja að best sé að leita að meininu með fullri ristilspeglun.
Sigríður leggur áherslu á að ekki sé eftir neinu að bíða, allar upplýsingar vegna hópleitar af þessu tagi séu til staðar. „Þetta er spurning um fjármagn,“ segir hún.