Ríkið leggi LÍN til meira fé

Ríkið mun að óbreyttu þurfa að leggja LÍN til sífellt …
Ríkið mun að óbreyttu þurfa að leggja LÍN til sífellt meiri fjármuni. mbl.is/Hjörtur

Ríkið mun þurfa að leggja Lánasjóði íslenskra námsmanna (LÍN) til sífellt meiri fjármuni að öllu óbreyttu. Þetta segir Jónas Friðrik Jónsson, stjórnarformaður LÍN, í samtali við mbl.is.

Stuðningur ríkisins við námsmenn, í gegnum sjóðinn, hefur aukist umtalsvert á undanförnum árum og er um 37% af heildarlánasafni sjóðsins. Þá var hinn opinberi stuðningur um 47% af útlánum lánasjóðsins árið 2012.

Þetta kemur fram í nýrri skýrslu, sem birt var í dag, um fjárhagslegar áhættur í rekstri LÍN. Summa Ráðgjöf slf. vann skýrsluna fyrir LÍN á grunni upplýsinga úr reiknilíkani Ríkisendurskoðunar um framlagsþörf sjóðsins.

Á þriggja til fimm ára fresti hafa fulltrúar stjórnar lánasjóðsins ásamt fulltrúum mennta- og menningarmálaráðuneytisins, fjármálaráðuneytisins og Ríkisendurskoðunar metið ýtarlega hvert framlag ríkisins til sjóðsins þarf að vera. Skýrslan er meðal annars liður í undirbúningi fyrir það verk. Þá er markmiðið einnig að fá hlutlaust álit utanaðkomandi aðila á rekstraráhættu sjóðsins.

Boltinn hjá stjórnmálamönnunum

„Skýrslan dregur einnig fram að það hefur verið mikill vöxtur í útlánum sjóðsins og þróunin er sú að heildarfjárhæð lána fer hækkandi. Það felur í sér almennar líkur á því að afföllin verði meiri og vaxtastyrkurinn verði að sama skapi meiri með lengri lánstíma,” segir Jónas Friðrik.

„Það þýðir að ríkið mun þurfa að leggja sjóðnum til sífellt meiri fjármuni að öllu óbreyttu. Við erum að vekja athygli á því, en það er auðvitað stjórnmálamannanna að ákveða hvernig þeir vilja bregðast við,” segir hann.

Hlutfallið fer hækkandi

Fram kemur í skýrslunni að í lok ársins 2012 hafi nafnvirði útlána LÍN verið 185 milljarðar króna og að útlánin hafi vaxið um næstum sextíu prósent frá árinu 2008. Núvirði lánanna er hins vegar nokkuð lægra, eða um 116 milljarðar króna, sem nemur um 63% af nafnvirðinu. Það þýðir að verulegur opinber stuðningur - eða 37% af heildarlánasafni sjóðsins - felst í námslánum í dag.

Þessar tölur eiga við um lánasafnið í heild en samkvæmt Ríkisendurskoðun er hlutfallið enn hærra þegar framlag ársins 2012 er skoðað. Áætlað er að stuðningurinn hafi verið um 47% af útlánum sjóðsins það árið.

Rúmlega helming hins títtrædda stuðnings má rekja til niðurgreiðslu vaxta lánanna. Jónas Friðrik útskýrir að sjóðurinn láni út á eitt prósent vöxtum en fjármagni sig, miðað við síðustu tölur, á 4,12% vöxtum. „Það getur því haft áhrif til að auka raunvirði lánasafnsins ef hægt verður að ná fjármögnunarvöxtunum niður,“ segir hann. Tæpan helming stuðningsins má síðan rekja til þess að lán greiðast ekki að fullu.

Aðspurður um hvaða skýringar séu á þessum mikla vexti í útlánum sjóðsins undanfarin ár segir Jónas Friðrik það vera ljóst að námsmönnum hefur fjölgað. „Það er einn þátturinn. Fleiri þættir hafa áhrif, svo sem að nám hefur verið að lengjast, fólk fer aftur í nám og þá voru námsframvindukröfur lækkaðar fyrir nokkrum árum, sem sjálfsagt hefur einhver áhrif,“ segir hann.

Skýrsluhöfundar benda á að vöxturinn í útlánunum sé jafn og að ekki sé ástæða til að ætla annað en að þróunin haldi áfram með árlegum sex til átta prósenta raunvexti.

Heildarfjárhæð lána hefur hækkað mjög

Í skýrslunni segir að alla jafna aukist stuðningurinn eftir því sem námslán hækka vegna þess að afborgunartími lengist og líkur á fullum heimtum minnka. Bent er á í skýrslunni að heildarfjárhæð lána hafi hækkað. Ef horft sé til lána, sem eru yfir 7,5 milljónir króna og þar sem endurgreiðslur eru ekki hafnar, kemur í ljós að fjárhæð þeirra hefur fimmfaldast á síðustu fimm árum, úr fimm milljörðum í 26 milljarða. Er heildarfjárhæð námslána yfir 7,5 milljónir um 63 milljarðar króna.

„Þetta er þróunin. Námslánin eru að hækka og styrkhlutfall nýrra lána er almennt hærra en hjá eldri lánum, eins og sést á því að styrkhlutfall miðað við allt lánsafnið er 37% en er 47% á árinu 2012,“ segir hann.

Hins vegar hefur heildarlán námsmanna sem skulda undir fimm milljónum króna lítið breyst á síðustu fimm árum og stendur nú nálægt 29 milljörðum króna, að því er fram kemur í skýrslunni.

Í skýrslunni segir jafnframt að afföll námslána hafi aukist í réttu hlutfalli við upphæð lánanna og lengd endurgreiðslutímans. Þannig sé núvirði láns upp á 7,5 til 10 milljónir að jafnaði um helmingur af nafnvirði. Núvirði lána lækki hratt með hækkandi lánsfjárhæð og sé aðeins um átján prósent fyrir lán yfir tuttugu milljónum.

Aukinn skilningur mikilvægur

Þá kemur fram í skýrslunni að áhættustýring lánasjóðsins sé ekki mikilvæg í samhengi við rekstrarhæfi hans, því áhættunni er allri varpað yfir á ríkissjóð. „Hins vegar stuðlar aukinn skilningur á áhættu sjóðsins að því að sú fjárfesting í menntun sem felst í rekstri sjóðsins verði bæði markvissari og upplýstari,“ segir í skýrslunni. Henni sé ætlað að vera skref í þá átt með því að varpa ljósi á vissa áhættuþætti sem tengjast starfsemi sjóðsins, lánasafni hans, úthlutunarreglum og fleiru.

<span><br/></span>
Jónas Friðrik Jónsson, stjórnarformaður LÍN.
Jónas Friðrik Jónsson, stjórnarformaður LÍN. Heiðar Kristjánsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert