Segja RIFF ekki hafa náð tilætluðum árangri

Frá RIFF í fyrra. Jón Gnarr borgarstjóri, sænski leikstjórinn Lukas …
Frá RIFF í fyrra. Jón Gnarr borgarstjóri, sænski leikstjórinn Lukas Moodysson og Hrönn Marinósdóttir stjórnandi RIFF. Moodysson, sem var einn af heiðursgestum hátíðarinnar, fékk verðlaun fyrir framúrskarandi listfengi í kvikmyndum. mbl.is/Rósa Braga

Fagnefnd á vegum Bandalags íslenskra listamanna (BÍL) telur að kvikmyndahátíðin Reykjavík International Film Festival (RIFF) hafi ekki náð tilætluðum árangri. Það er
ein ástæða þess að nefndin lagði til að RIFF fengi ekki fjárstyrk frá Reykjavíkurborg í ár, heldur Heimili kvikmyndanna í Bíó Paradís, til að halda alþjóðlega kvikmyndahátíð.

Morgunblaðið greindi frá málinu á dögunum, greinargerð nefndarinnar var þá trúnaðarmál en nú hefur trúnaði verið aflétt af henni. „Heimili kvikmyndanna setur að okkar mati raunhæf markmið varðandi uppbyggingu verkefnis frá faglegu sjónarmiði. Mat fagnefndar er að RIFF hafi ekki náð tilætluðum árangri. Sá árangur yrði mældur í framboði kvikmynda, sem hafa sérstakt listrænt gildi, og almennri aðsókn og áhuga. Einnig má horfa til kostnaðar í samanburði við aðsókn,“ segir í greinargerð fagnefndar BÍL.

RIFF hefur verið haldin síðastliðin 10 ár og alltaf hlotið styrk frá Reykjavíkurborg, hátt í tíu milljónir á síðasta ári. Nú verða hins vegar veittar 8 milljónir til Kvikmyndahátíðar í Reykjavík.

Í sérstökum rökstuðningi varðandi úthlutun styrkjar til Heimilis kvikmyndanna vegna kvikmyndahátíðarhalds eru nefnd þessi faglegu rök:

„Heimili kvikmyndanna setur að okkar mati raunhæf markmið varðandi uppbyggingu verkefnis frá faglegu sjónarmiði. Mat fagnefndar er að RIFF hafi ekki náð tilætluðum árangri. Sá árangur yrði mældur í framboði kvikmynda, sem hafa sérstakt listrænt gildi, og almennri aðsókn og áhuga. Einnig má horfa til kostnaðar í samanburði við aðsókn. “

Ýmis atriði sem liggja til grundvallar tillögu fagnefndarinnar eru þessi:

  • Verk- og tímaáætlun Kvikmyndahátíðar í Reykjavík er vel unnin. Þar kemur fram hver vinnur hvað og í hversu langan tíma. Undirbúningur kvikmyndahátíðar er mikið og vandasamt verk og það skiptir miklu máli fyrir þá sem koma sem gestir hátíðarinnar svo og þeirra sem sækja sýningar að allt sé aðgengilegt og að upplýsingar um atburði liggi fyrir og að þeir séu skipulagðir.
  • Einnig er markmið hátíðarinnar áhugaverð í alla staði. Fyrst má nefna að sýndar verða myndir sem hafa borið af á erlendum kvikmyndahátíðum þannig að áhorfendur væru að sjá það nýjasta.
  • Leggja á áherslu á ákveðna kvikmyndaflokka innan hátíðarinnar, sem tryggir fjölbreyttara úrval kvikmynda.
  • Hátíðin verður í samstarfi við erlenda aðila þar sem að tengsl KMÍ og Bíó Paradísar við erlenda aðila í dreifingu og dagskrárgerð nýtast til fulls. Bíó Paradís hefur lagt metnað sinn í að sýna Evrópskar myndir og aðrar myndir sem hafa skarað fram úr.
  • Mjög áhugaverður þáttur lýtur að kynningu á íslenskum kvikmyndum og á íslenskum kvikmyndaiðnaði. Með því er ætlunin að vekja áhuga erlendra framleiðanda og dreifingaraðila sem hingað verður boðið til að sjá afrakstur íslenskrar kvikmyndagerðar, kynna framúrskarandi íslenska reynslubolta í kvikmyndagerð og hvaða möguleikar bjóðast hér til kvikmyndagerðar. Einnig ætlar Kvikmyndahátíð í Reykjavík að vera með vinnu- og verknámskeið.
  • Miðað verður við að 50-60 gæðamyndir verði sýndar á hátíðinni og við teljum að sú stærð hátíðar henti Kvikmyndahátíð í Reykjavík. Gæði kvikmyndahátíða fara ekki eftir magni mynda, heldur gæðum þeirra og þeim gestum sem fylgja með myndunum hingað heim.
  • Kvikmyndahátíð í Reykjavík ætlar að hafa dagskrárlið fyrir barna- og unglingamyndir.
  • Hugmyndir að baki Kvikmyndahátíð í Reykjavík eru metnaðarfullar og framúrskarandi spennandi. Að baki stendur fólk sem hefur brennandi áhuga á að efla kvikmyndamenningu.

Þá er talað um samlegðaráhrif:

„Samlegð við rekstur Bíó Paradísar í mannahaldi og aðstöðu virðist okkur mjög vel til þess fallin að styrkja rekstur stofnunar, sem gegnir mikilvægu hlutverki í að tryggja framboð og kynningu kvikmynda með listrænt gildi.“


Að lokum eru birtir þessir punktar úr samræðum innan fagnefndarinnar:

  • Styrkir innviði Bíó Paradísar sem miðstöð og heimili kvikmyndanna. Kvikmyndahátíðin verður þá hluti af heilsársstarfi Bíó Paradísar og uppeldishlutverki þess.
  • Húsnæði bíósins hentar mjög vel til kvikmyndahátíðar, staðsetning í miðbænum veitir viðeigandi umgjörð og skemmtilega nálægð við hjarta borgarinnar.

Yfirlýsing Helgu Stephenson heiðursformanns RIFF

Umfjöllum um málið í síðasta Sunnudagsblaði

Gagnrýni Baltasars Kormáks

Ekki hlutverk borgar...

Reykjavík hættir að styrkja RIFF

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert