„Truflar mig mjög mikið“

Oddgeir Ágúst Ottesen, varaþingmaður og hagfræðingur.
Oddgeir Ágúst Ottesen, varaþingmaður og hagfræðingur.

„Seðlabankinn hefur skoðað áhrif þess að skattpeningar séu notaðir til þess að greiða niður verðtryggð lán heimilanna. Flest virðist benda til þess að að meðaltali feli slíkar aðgerðir í sér tilfærslu á fjármunum frá tekjulægri hópum þjóðfélagsins til þeirra tekjuhærri og frá þeim eignaminni til þeirra eignameiri. Slík ráðstöfun fjármuna truflar mig mjög mikið og ég er hissa á að hún truflar ekki alla þingmenn.“

Þetta sagði Oddgeir Ágúst Ottesen, varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins, á Alþingi í dag í umræðum um störf þingsins. Gagnrýndi hann tillögur sem unnar hafa verið um skuldamál heimilanna og sagði að þó að þær gætu haft jákvæð efnahagsleg áhrif til skamms tíma einkum vegna aukinnar neyslu og innflutnings væru þær óhagkvæmar til lengri tíma litið enda væri með þeim ekki verið að skapa verðmæti.

„Tökum sem dæmi einfalda aðgerð sem fæli í sér að Alþingi myndi kaupa sjónvörp og gefa hluta heimila landsins. Slík aðgerð myndi auka lítillega landsframleiðslu. Einhver myndi fá greitt fyrir að flytja sjónvörpin til landsins, einhver myndi hagnast á því að selja sjónvörpin til Alþingis, en þetta væri alls ekki hagkvæm efnahagsleg aðgerð sem myndi auka verðmætasköpun í landinu. Aukinn innflutningur myndi veikja gengi krónunnar og auka verðbólgu. Hagvöxtur í framtíðinni myndi dragast saman,“ sagði hann ennfremur.

Eins væri það með niðurgreiðslu á verðtryggðum skuldum heimilanna. Slíkar greiðslur væru fyrst og fremst til þess fallnar að auka neyslu og innflutning tímabundið en hefðu lítil sem engin áhrif á verðmætasköpun í landinu. Greiðsla verðbólgubóta leiddi til þess að gengi krónunnar yrði veikara og verðbólga ykist. „Aðgerð er ekki efnahagslega hagkvæm.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert