Hertari kröfur um námsframvindu þýða að ríkið sé að fjárfesta í minni og einsleitari hópi. Ef vilji standi til þess að fá námsmenn fyrr út á vinnumarkaðinn á að gefa þeim góða ástæðu til þess, en ekki standa yfir þeim með pískinn.
Þetta segir Anna Marsibil Clausen, formaður Landssamtaka íslenskra stúdenta, í samtali við mbl.is.
Fram kemur í nýrri skýrslu um fjárhagslegar áhættur í rekstri Lánasjóðs íslenskra námsmanna (LÍN), sem mbl.is greindi frá í gær, að námsmönnum sem þiggja lán hjá sjóðnum hafi fjölgað töluvert frá hruni. Þá sé bæði námstími að lengjast og fjárhæð lána að hækka.
Í samtali við mbl.is sagði Jónas Friðrik Jónsson, stjórnarformaður LÍN, að ríkið myndi þurfa að leggja sjóðnum til sífellt meiri fjármuni að öllu óbreyttu.
Anna segir að það eigi ekki að koma neinum á óvart og sé ekki neikvætt. Þetta aukna fjármagn komi til vegna þess að fleiri sæki í nám en áður, auk þess sem fleiri sæki í nám á erlendri grundu.
„Síðasta ríkisstjórn stærði sig af því að hafa tekist að lækka atvinnuleysið hér á landi. En ein af ástæðunum fyrir því er sú að fólki var sópað inn í háskólana. Frá hruni hefur mun fjölbreyttari hópur fólks skráð sig í háskólanám,“ segir hún.
Mikið af því sé fjölskyldufólk og eldri nemar sem vilji auka möguleika sína á vinnumarkaði með því að fara aftur í skóla, frekar en að lifa á bótum.
Samkvæmt skýrslunni aukast afföll námslána í réttu hlutfalli við upphæð lánanna og lengd endurgreiðslutímans. Þannig er til dæmis áætlað að tæplega helmings eftirgjöf felist í námsláni á bilinu 7,5 til 10 milljónir króna.
Anna segir að námsmannahreyfingarnar séu boðnar og búnar til að hjálpa stjórn LÍN við að finna nýjar leiðir til að bæta rekstur sjóðsins og heimtur á lánum. „En þær leiðir sem verða fyrir valinu mega ekki bitna á námsmönnum. Þeirra hagur er hagur okkar allra.“
Hún segir að það sé hagur ríkisins að fólk af öllum stigum samfélagsins hafi jafnan aðgang að menntun. Menntun Íslendinga erlendis sé þjóðinni einnig til góða því langflestir sem stundi nám í erlendum háskólum snúi aftur með þekkingu og reynslu sem skiptir okkur sköpum. „Hvar værum við til dæmis stödd ef læknanemar gætu ekki fengið námslán fyrir framhaldsnámi erlendis?“
Eins og frægt er orðið vill stjórn LÍN hækka kröfur um námsframvindu úr 60% í 75% á hverju námsmisseri.
Anna segir að kröfurnar séu ólíkar því sem gerist á Norðurlöndunum. „Aðeins í Finnlandi eru gerðar kröfur um 75% námsframvindu en finnskir nemar fá jafnframt beinan styrk fyrir húsnæði og námi, auk niðurgreiddra námslána. Það sama má segja um hin Norðurlöndin,” segir hún.
Stuðningur ríkisins, með niðurgreiðslu vaxta, við námsmenn sé mun minni hér á landi.
„Betur má ef duga skal. Jafnvel þó að námsmaður taki full námslán og vinni upp í frítekjumarkið skortir enn upp á að viðkomandi nái upp í framfærslugrunn LÍN,“ segir hún.
Þá sé framfærslugrunnurinn mun lægri en sá grunnur sem umboðsmaður Alþingis geri ráð fyrir að fólk þurfi til að lifa.
Hún segir að stjórn sjóðsins hafi enn áform um að herða framvindukröfurnar til að ýta námsmönnum hraðar í gegnum háskólanám og lækka kostnað á hvern nemanda.
En eins og fram komi í skýrslunni sjálfri sé hæpið að kalla þau afföll sem verða af námslánum tap, þar sem öll menntun sé fjárfesting í mannauði fyrir ríkið. „Þessi fjárfesting skilar sér aftur margfalt í formi skatta,“ útskýrir hún.
„Auknar framvindukröfur myndu þýða að ríkið væri að fjárfesta í minni og einsleitari hópi og það er neikvætt fyrir okkur öll. Ekki bara fyrir þá sem missa þar með tækifæri til að mennta sig. Ef við viljum fá fólk fyrr úr námi og út á vinnumarkaðinn þurfum við að gefa því einhverja jákvæða ástæðu til þess, en ekki standa yfir þeim með pískinn.“