Engin Sundlauganótt í Hafnarfirði

Engin Sundlauganótt verður í Ásvallalaug í Hafnarfirði, alla vega ekki …
Engin Sundlauganótt verður í Ásvallalaug í Hafnarfirði, alla vega ekki í febrúar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Íþrótta- og tómstundanefnd Hafnarfjarðar samþykkti á fundi sínum í vikunni að taka ekki þátt í verkefninu Sundlauganótt en það er haldið í tengslum við Vetrarhátíð í Reykjavík. Í fyrirspurn til Hafnarfjarðar segir að nágrannasveitarfélög hafi sýnt því áhuga að taka þátt í verkefninu.

Vetrarhátíð í Reykjavík verður haldin 6.-15. febrúar næstkomandi. Einn dagskrárliðurinn er Sundlauganótt sem fram fer laugardaginn 15. febrúar. Þá er opið í sundlaugum Reykjavíkur til miðnættis, frítt inn um kvöldið og ýmsir viðburðir sem fram fara. Þar sem fleiri sveitarfélög hafa sýnt áhuga á að taka þátt í Sundlauganótt var spurst fyrir um hvort áhugi væri á því hjá Hafnarfirði.

Málið var tekið fyrir á fundi íþrótta- og tómstundanefndar Hafnarfjarðar þar sem samþykkt var að taka ekki þátt í verkefninu. Hafnfirðingar þurfa þó ekki að örvænta því í fundargerð segir að nefndin „stefnir að sambærilegum viðburði á „Björtum dögum“ í Hafnarfirði.“ Þar er um að ræða lista- og menningarhátíðin sem haldin er árlega í lok maí og í byrjun júní.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka