Flækjustig skattkerfisins torveldar eftirlit

Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra.
Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra. mbl.is/Ómar Óskarsson

Hægt verður í vor að meta með áreiðanlegri hætti en nú hvort grípa þurfi til nýrri og víðtækari aðgerða en þegar er gert til þess að stemma stigum við undanskotum frá skatti þegar gert er ráð fyrir að starfshópur skipaður sjö sérfræðingum skili af sér skýrslu um umfang undanskota eftir atvinnugreinum og meta möguleg heildarundanskot.

Þetta var meðal þess sem fram kom í máli Bjarna Benediktssonar, fjármálaráðherra, á Alþingi í dag í sérstakri umræðu um svarta atvinnustarfsemi en málshefjandi var Brynhildur Pétursdóttir, þingmaður Bjartrar framtíðar. Gerði Bjarni grein fyrir þeim aðgerðum sem gripið hefði verið til fram til þessa sem gefið hefðu góða raun. Meðal annars með sameiningu skattaumdæma í eitt undir embætti Ríkisskattstjóra og stofnun sérstaks sviðs á vegum þess sem einbeitti sér að þessum málum.

Bjarni benti á að eitt af því sem gæti torveldað eftirlit með skattaundanskotum væri flækjustig skattkerfisins. Sagði hann að það flækti til að mynda málin að vera með mikið bil á milli virðisaukaskattþrepa. Eftirlit með því hvort greiddur hafi verið réttur virðisaukaskattur í viðskiptum sem ekki væri mikill munur á gæti reynst mjög erfitt.

Sama ætti við um starfsemi sem væri undanþegið virðisaukaskatti. Væri slík starfsemi skráð inn í virðisaukaskattskerfið myndi það auðvelda mjög eftirlit. Þá ræddi hann ennfremur um bótasvik sem væru sérstaklega skaðleg og drægju úr getu stjórnvalda til þess að styðja við þá sem þyrftu á bótakerfinu að halda og ættu rétt á greiðslum úr því.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert