Framlag ríkisstjórnarinnar til samninganna frekar rýrt

Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ.
Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ. Ernir Eyjólfsson

„Það eru engin skýr skilaboð sem koma út úr þessari afgreiðslu. En engu að síður flækir það mjög stöðuna þegar helmingur félagsmenna hafnar því sem við erum að gera,“ segir Gylfi Arnbjörnsson, forseti Alþýðusambands Íslands, í samtali við mbl.is.

Honum finnst eðlilegt að ríkið taki nú forystu og leggi upp nýja launastefnu.

Þrjátíu aðildarfélög innan ASÍ hafa skilað niðurstöðum kosninga um kjarasamninga sambandsins, sem gerður var við Samtök atvinnulífsins í desember. Samkvæmt yfirliti á vefsíðu ASÍ hafa fimmtán félög fellt samninginn, tólf samþykkt hann og í þremur félögum hafa sumir hópar innan þeirra samþykkt og aðrir fellt.

Meðal þeirra félaga sem hafa hafnað samningnum er Eining-Iðja á Akureyri, eitt stærsta aðildarfélag Starfsgreinasambandsins.

Gylfi segir það vera mjög brýnt að reyna að glöggva sig á stöðunni. „Fyrsta verkefnið er einfaldlega að fara í baklandið, sérstaklega þeirra félaga sem felldu samninginn en líka hinna. Reyna að greina stöðuna: Hvað var það sem menn vildu ekki samþykkja?“

Hann segir að framlag ríkisstjórnarinnar til samninganna hafi verið frekar rýrt. „Það var ljóst að það var mikil reiði, sérstaklega innan félaga Starfsgreinasambandsins, vegna þess að ríkisstjórnin vildi ekki hækka skattleysismörkin. Hún vildi frekar ráðstafa um 60% af því skattalækkunarsvigrúmi sem hún hafði í hendinni til þeirra tekjuhæstu í landinu. Og hundsa alveg þarfir þeirra sem eru með tekjur undir 250 þúsund krónur á mánuði,“ segir Gylfi.

Hann bendir meðal annars á framkomu ríkisstjórnarinnar hvað varðar það að vilja ekki afturkalla hækkanir á gjaldskrám og sköttum. „Að hækka þjónustugjöld í heilbrigðiskerfinu um 20% á sama tíma og verið er að gera kjarasamning um lækkun verðbólga. Ég held að þetta hafi haft mikil og neikvæð áhrif á afgreiðslu samninganna.“

Gylfa finnst eðlilegt að ríkið taki nú forystu og semji við sína starfsmenn, sem renna út í næstu viku. „Það hlýtur að vera næsta skref í kjaramálum landsmanna að ríkið leggi upp nýja launastefnu.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert