Gögnin geymd í fimm ár

Vodafone í Skútuvogi
Vodafone í Skútuvogi Ómar Óskarsson

Vodafone veitti lögreglu upplýsingar um símnotkun einstaklings sem var til rannsóknar hjá lögreglu fimm árum áður en beiðnin barst frá lögreglu. Samkvæmt lögum hefði átt að eyða þessum gögnum þegar þau voru sex mánaða gömul. Þetta kemur fram í tilkynningu sem Vodafone hefur sent frá sér.

„Vegna upplýsinga sem fram koma í tveggja ára gömlum rannsóknargögnum lögreglu um meint kynferðisbrot og birt hafa verið á netinu vill Vodafone koma eftirfarandi á framfæri.

Í gögnunum er að finna afrit af tölvusamskiptum tveggja lögreglumanna þar sem m.a. sést beiðni sem send var Vodafone í kjölfar dómsúrskurðar. Í beiðninni er óskað eftir tilteknum gögnum frá fyrirtækinu vegna rannsóknar málsins. Í svari fyrirtækisins koma fram upplýsingar um þrjú símtöl frá árinu 2007. Fram kemur úr hvaða númeri var hringt,  nafn hringjanda, í hvaða númer var hringt og lengd símtalanna. Tölvusamskiptin milli lögreglu og Vodafone áttu sér stað í febrúar 2012. Ljóst er að umrædd gögnum hefði átt að vera búið að eyða, þar sem þau voru orðin eldri en 6 mánaða. Rétt er að taka fram að skömmu eftir að þessi samskipti áttu sér stað var verklagi við geymslu og eyðingu gagna breytt að höfðu samráði við Póst- og fjarskiptastofnun. Engin gögn eldri en 6 mánaða eru geymd hjá Vodafone í dag.

Vodafone harmar að reglum um vistun gagnanna hafi ekki verið framfylgt á þessum tíma. Í þessu tilfelli er verið að afhenda lögreglu gögn vegna rannsóknar í sakamáli og samkvæmt dómsúrskurði. Það breytir þó ekki þeirri staðreynd gögnin áttu ekki að vera geymd. Það skal ítrekað að engin fjarskiptagögn eldri en 6 mánaða eru nú geymd hjá fyrirtækinu en farið var í sérstaka athugun á því í kjölfar innbrots á vef Vodafone seint á síðasta ári,“ segir í tilkynningu frá Vodafone.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka