„Háttvirtur formaður nefndarinnar hefur svarað hvernig þessi tala varð til held ég. Hún varð til í samtali milli fjármálaráðuneytisins og háttvirts formanns nefndarinnar,“ sagði Vilhjálmur Bjarnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og fulltrúi í efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis.
Vísaði hann þar til Frosta Sigurjónssonar, formanns nefndarinnar, en ummælin voru viðbrögð við spurningu frá Kristjáni L. Möller, þingmanni Samfylkingarinnar, sem sagðist bera mikið traust til Vilhjálms í efnahags- og viðskiptamálum og bað hann um að upplýsa hvernig 50 milljarða króna frískuldamark vegna sérstaks skatts á fjármálafyrirtæki hefði komið til.
Frosti hafði áður sagt að talan hefði orðið til í fjármálaráðuneytinu en því höfnuðu fulltrúar þess og sögðu töluna þvert á móti hafa komið frá efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis. Frosti hefur gefið þá skýringu að ætlast hafi verið til að ráðuneytið hefði komið með tillögu að heppilegri tölu en ekki væri útilokað að talan ætti uppruna sinn hjá nefndinni.
Vilhjálmur sagði ennfremur að frískuldamarkið hefði ekki verið fundið út með mikilli vinnu. Hann sagðist að öðru leyti ekki vita hvernig talan hefði verið fengin en grunaði að það hefði gerst í samskiptum á milli Frosta og fjármálaráðuneytisins. Frosti hafi hugsanlega velt þeirri tölu upp en hann hefði sjálfur engin gögn séð um það.