Evrópusambandið beitti neitunarvaldi á vettvangi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO) til þess að koma í veg fyrir að deila sambandsins við Færeyinga um síldveiðar þeirra síðarnefndu yrðu tekin fyrir á fundi stofnunarinnar í dag.
Færeysk stjórnvöld kærðu Evrópusambandið til WTO í byrjun nóvember vegna viðskiptaþvingana sem sambandið greip til gegn Færeyjum síðastliðið sumar í kjölfar þeirrar ákvörðunar Færeyinga að setja sér einhliða hærri síldarkvóta í norsk-íslenska síldarstofninum en þeir höfðu áður haft samkvæmt samningum.
Haft er eftir Kaj Leo Holm Johannesen, lögmanni Færeyja, á færeyska fréttavefnum Portal.fo að ákvörðun Evrópusambandsins sé vonbrigði. Hann hafi vonast til þess að sambandið væri reiðubúið að láta á það reyna á vettvangi WTO hvort aðgerðir þeirra gegn Færeyjum stæðust alþjóðlegar skuldbindingar þess.
Þá segir að Evrópusambandinu takist þó ekki að koma í veg fyrir að deilan verði tekin fyrir hjá gerðadómstól á vegum WTO enda verði hann settur á laggirnar á næsta fundi stofnunarinnar sem fram fari 26. febrúar næstkomandi.