Fasteignaverð gæti lækkað um 20% við fullt afnám verðtryggingar

Ingibjörg Ingvadóttir, formaður sérfræðingahópsins, kynnir niðurstöður skýrslunnar í dag.
Ingibjörg Ingvadóttir, formaður sérfræðingahópsins, kynnir niðurstöður skýrslunnar í dag. mbl.is/Árni Sæberg

Afnám verðtryggingar af neytendalánum gæti leitt til þyngri greiðslubyrði og gert tekjulægstu hópunum erfiðara fyrir að kaupa húsnæði. Þetta kom fram á blaðamannafundi sérfræðingahóps um afnám verðtryggingar í dag.

Þar kom einnig fram að fullt afnám verðtryggingar gæti takmarkað aðgengi tekjulægri hópa að lánsfé. Þá gæti afnámið leitt til tuttugu prósenta lækkunar á fasteignaverði á tveimur árum, samkvæmt mati Seðlabanka Íslands.

Fjárfestingarumhverfi lánveitenda, þar á meðal lífeyrissjóða, myndi einnig gjörbreytast og óvíst yrði hvort lífeyrissjóðirnir gætu yfirhöfuð haldið áfram að fjármagna fasteignalán heimilanna.

Jafnframt kom fram á blaðamannafundinum að fullt afnám verðtryggingar gæti leitt til minni hagvaxtar, að minnsta kosti til skemmri tíma. Áhrif á fjármálastöðugleika yrðu annaðhvort óviss eða neikvæð.

Fjórar helstu tillögur hópsins

Í skýrslunni er lagt til að frá og með 1. janúar 2015 verði tekin veigamikil skref í átt að fullu afnámi verðtryggingar nýrra neytendalána:

  • Óheimilt verði að bjóða neytendum verðtryggð lán með jöfnum greiðslum til lengri tíma en 25 ára.
  • Lágmarkstími nýrra verðtryggðra neytendalána verði lengdur í allt að tíu ár.
  • Takmarkanir verði gerðar á veðsetningu vegna verðtryggðra íbúðalána.
  • Hvatar verði auknir til töku og veitingar óverðtryggðra lána.

Frétt mbl.is: Hámarkslánstími styttur í 25 ár

Frétt mbl.is: Mestu breytingarnar frá setningu Ólafslaga

Frétt mbl.is: Íslandslánin afnumin

Frétt mbl.is: „Ekki hvort, heldur hvernig“

Frétt mbl.is: Bann hefði neikvæð áhrif

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert