Gagnrýndu Rússlandsför ráðherra

Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra.
Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Þingmenn úr röðum stjórnarandstæðinga gagnrýndu Illuga Gunnarsson menntamálaráðherra á Alþingi í morgun vegna þeirrar fyrirætlanar hans að mæta á vetrarólympíuleikana í Sochi í Rússlandi í ljósi afstöðu þarlendra stjórnvalda í garð samkynhneigðra sem og ofbeldis í garð þeirra þar í landi.

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir beindi þeirri fyrirspurn til Illuga hvort hann ætlaði að fara á ólympíuleikana og ef svo væri hvort hann ætlaði þá að nota tækifærið til þess að mótmæla stefnu stjórnvalda í Rússlandi. Benti hún á að nokkrir þjóðarleiðtogar, eins og Bandaríkjaforseti, Frakklandsforseti og Þýskalandsforseti, ætluðu ekki að sækja leikana heim. Ráðherra tók undir áhyggjur af stöðu samkynhneigðra þar í landi og almennt um stöðu mannréttindamála þar. Sagðist hann fylgja fordæmi kollega sinna á hinum Norðurlöndunum sem ætluðu allir að sækja leikana með einum eða öðrum hætti utan Finna sem ekki hefðu tekið ákvörðun í þeim efnum.

Illugi sagðist ennfremur alltaf hafa verið þeirrar skoðunar að varhugavert væri að tengja saman um of ólympíuleikana og stjórnmál. Það væri þó alltaf matsatriði hverju sinni. Almennt séð væri rétt að athuga það að vera ekki að halda ólympíuleikana í löndum þar sem ætla mætti að ekki væri hægt að sækja af pólitískum ástæðum. Það hafi hins vegar verið mat hans að sækja ólympíuleikana. Ef tækifæri gæfist myndi hann að sjálfsögðu lýsa yfir afstöðu sinni til umræddra mannréttindabrota.

Réttast að ráðherrann færi hvergi

Sigríður Ingibjörg sagðist telja að heppilegast væri að ráðherrann færi ekki á ólympíuleikana. Hún sagði það gagnast stjórnvöldum í Rússlandi að teknar væru myndir af ráðamönnum annarra þjóða á leikunum sem þar með væru að samþykkja stefnu þeirra. Taldi hún ekki viðeigandi að Illugi færi í jafn táknræna ferð sem þessa og segðist aðeins ætla að lýsa yfir mótmælum ef færi gæfist. Ætlaði hann á ólympíuleikana bæri honum skylda til að koma slíkum mótmælum á framfæri.

Ráðherrann svaraði og hafnaði því alfarið að í því fælist pólitískt samþykki við stefnu rússneskra stjórnvalda að fara á ólympíuleikana. Ekki frekar en að ferð á ólympíuleika í Bandaríkjunum fæli í sér samþykki á dauðarefsingum sem væru framkvæmdar þar í landi og hann væri sjálfur mjög á móti. Hann ítrekaði að yrði til þess tækifæri myndi hann koma mótmælum á framfæri.

Eygló Harðardóttir félagsmálaráðherra tók einnig til máls og upplýsti að hún hefði einnig þegið boð á ólympíuleikana frá fötluðum íþróttamönnum. Hún hefði hins vegar komið mótmælum við stefnu stjórnvalda í Rússlandi gagnvart samkynhneigðum á framfæri við sendiherra landsins hér á landi. Hún benti á að hún hefði ekki aðeins skyldum að gegna gagnvart samkynhneigðum heldur einnig til að mynda fötluðum.

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar.
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Ómar Óskarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert