„Við viljum að fólk geti tekið upplýstar og yfirvegaðar ákvarðanir í fjármálum. Fjármál er eitthvað sem fólk þarf að takast á við á hverjum einasta degi og því miður vill það oft einkennast að það láti hræðslu eða græðgi ráða för,“ segir Einar Smárason, formaður Ungra fjárfesta, í samtali við mbl.is.
Ungir fjárfestar er nýstofnað félag fyrir ungt fólk á aldrinum 18 til 35 ára, en kynningarfundur félagsins var haldinn í Þjóðmenningarhúsinu í kvöld.
Mikið fjölmenni var á fundinum en talið er að yfir 150 manns hafi látið sjá sig.
Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, Heiðar Már Guðjónsson fjárfestir og Páll Harðarson, forstjóri Kauphallarinnar, héldu öll stutt erindi á fundinum.
Að sögn Einars var félagið stofnað með það að markmiði að vekja áhuga ungs fólks á fjármálum, fjárfestingum, sparnaði, verðbréfamörkuðum og öðru því tengdu.
„Upphaflega vorum við nokkur sem langaði að fræðast meira um fjármál. Okkur langaði að skapa einhvern hóp sem gæti rætt saman um þessi mál og myndað eins konar tengslanet. Við litum í kringum okkur og sáum að það var ekki neinn slíkur hópur til staðar.
Þá fórum við að tala við fleiri í kringum okkur og svo virtist vera að það væru margir sem hefðu áhuga á að fræðast meira um þessi mál. Þannig að við ákváðum að láta bara á það vaða og stofna slíkt félag,” útskýrir Einar.
Hann segir að fyrst um sinn muni félagið halda fræðslufundi, einn í hverjum mánuði, um ýmislegt sem tengist fjármálum, fjárfestingum, sparnaði og svo framvegis.
„Síðan ætlum við líka að halda úti vefsíðu en þar verður hægt að nálgast bæði fræðsluefni og greinar. Við byrjum á þessu og sjáum hver viðbrögðin verða,“ segir hann.
- Hvernig hafa viðtökurnar verið?
„Við finnum fyrir mjög miklum áhuga. Það kemur okkur eiginlega á óvart hvað það eru margir sem taka vel í þetta. Jafnvel fólk sem maður gerði ekkert endilega ráð fyrir fyrst að hefði áhuga á að öðlast dýpri þekkingu á fjármálum,“ segir hann.
Þá hafi félagið fengið afar jákvæð viðbrögð frá ýmsum fyrirtækjum. „VÍB, sem er eignastýringarþjónusta Íslandsbanka, og Kauphöllin hafa hjálpað okkur mikið við að koma félaginu af stað. Síðan hefur fjármálafyrirtækið GAMMA lagt okkur lið og sömu sögu má segja af auglýsingastofunni Jónsson & Le’macks. Við höfum einnig átt í viðræðum við önnur fjármálafyrirtæki. Það hafa allir tekið rosalega vel í þetta hjá okkur.“
Aðspurður um almennan áhuga ungs fólks á fjármálum segir Einar að mörgum þykir umræðan um fjármál, eins og hún er í þjóðfélaginu, frekar leiðinleg og fráhrindandi. „Það vantar oft að setja þetta í einfaldari búning. Þá vill umræðan um þessi mál í fjölmiðlum oft vera neikvæð og á of miklu fræðimáli,“ nefnir hann.
„En í grunninn held ég að flest ungt fólk vilji vita meira um fjármál og geta tekið upplýstar ákvarðanir. Það hefur bara vantað einhvern vettvang fyrir það til að ræða þessi mál og afla sér frekari þekkingar, án þess að þurfa að fara í viðskiptafræðinám eða annað þvíumlíkt,” segir Einar að lokum.
Stjórn Ungra fjárfesta skipa Einar Smárason, formaður, Aldís Geirdal Sverrisdóttir, varaformaður, Jónas Elvar Halldórsson, gjaldkeri, Dagný Fjóla Ómarsdóttir, ritari, Garðar H Karl Ólafsson, meðstjórnandi, og Hilmar Freyr Kristinsson, meðstjórnandi.
Fyrsti fræðslufundur félagsins verður haldinn í febrúar.